<
Dagbók Ernu og Mödda
Blogg:
Soffía
Stína
Herdís
Bumbublogg


Hlekkir:
Drudge Report
Sálufélaginn
Liverpool
The Onion
Félagið Ísland-Palestína
Columbia
Columbia Bio

Nýtt blogg -->









Gamlir dagar:






Powered by Blogger
Kíkið á nýju heimasíðuna og nýja bloggið okkar! www.ernaogmoddi.com www.ernaogmoddi.com/blogg



fimmtudagur, nóvember 29, 2001

 
Aumkunarverðar umkvartanir.
Já, þetta er nú ljótt með hann Mörð minn, tapandi fyrir sér minni og mjórri mönnum í veggtennis. Ég fer nú bráðum að taka hann í einkaþjálfun, svona til að auka snerpuna ;)

Annars var þetta fínn dagur á labbinu í dag. Það voru samræður í gangi! Nokkuð sem gerist ekki oft á þeim bænum, þannig að ég stóðst ekki mátið og bara spjallaði við vinnufélagana í dag. Ágætis tækifæri til þess að liðka kjálkaliðina. Það er nefnilega svo gagnlegt að spjalla við fólk stundum. Ég komst til dæmis að því að konan sem ég er að fara í viðtal við í næstu viku út af "rótasjón" á næsta misseri, er víst alger "big-shot" þarna í skólanum, og á sand af seðlum. Það eykur líkurnar á að maður fái að gera rándýrar og áhugaverðar tilraunir, og ekki líklegt að það sé mikið verið að nískast með peníngana. Ef maður er duglegur að vinna hjá henni, er líka líklegt að maður nái að klára á fimm árum, en reglan er eiginlega að fólk taki sex ár í að klára.
Ég komst líka að því að markaðurinn væri mettaður af fólki með doktorskráðu í frumulíffræði, þ.e. einkageirinn, og ef maður ætlaði að gera það gott eftir námið, þá þyrfti maður að fara út í strúktúr. Nokkuð sem ég hef verið að velta fyrir mér en er ekki alveg viss um að sé nokkuð fyrir mig. Þegar ég tala um strúktúr, þá á ég við "structural biology" þar sem bygging próteina er ákvörðuð, þ.e. þrívíddarlögun þeirra. Vinnan er víst svolítið einhæf, en mér finnst þetta pínu spennandi.

Það er svo gott við deildina mína að maður getur prófað svo marga mismunandi hluti áður en maður ákveður hvað maður ætlar að leggja fyrir sig. Gott mál, búin að finna einn jákvæðan hlut við þessa blessuðu deild, sem er ekki alveg í uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Það er svo mikið af smákóngum í deildinni, að það fer að minna á lýsingar á samskiptum fólks í Stjórnmálafræðiskor Háskóla Íslands... (no offense).

Ég og Noelia vinkona mín, fórum að tala við kennarann sem færði prófið sitt til 19. des, og hann varð eiginlega frekar fúll, ekki út í okkur, en bara hina kóngana í deildinni sem vaða alltaf yfir hann. Flestir hinna í bekknum sendu honum svo tölvupóst þar sem þau sögðu að þau væru búin að panta flug heim fyrir þann 19. des og báðu um að prófinu yrði flýtt.
Í gær fengum við svo eftirfarandi bréf frá honum:

I have recieved your various pathetic supplications. We can
discuss the timing of the exam at our first class meeting, which will
occur from 10 am to 12:30 pm this Friday, 11/30.


Þannig að á morgun kemur í ljós hvort við Mörður komumst heim um jólin!



miðvikudagur, nóvember 28, 2001
 
Hæ, hæ... allir skallir,
...nú er ég gersamlega úrvinda, eins og lítil blaut tuska... Hvernig er þetta með próf, hvernig fara þau að því að gera mann svona?
Ég náttúrulega nennti ekki að fara að æfa í gærkvöld og sat heiladauð heima og fékk mér pizzu og einbeitti mér að því að læra ekki fyrir próf. Og af því að ég nennti ekki að æfa, þá var ég enn í fullu fjöri upp úr miðnætti, og ætlaði bara aldrei að sofna.
Ég vaknaði því alveg á síðustu stundu fyrir prófið, dreif mig út, rétt náði í kaffiteríuna að kaupa mér stjörnubaukabrugg, og hentist kófsveitt inn í skólastofuna. Já, ég var kófsveitt af því að ég vaknaði í morgun með þá ranghugmynd að fyrst að það væri komið fram í lok nóvember þyrfti ég nú að fara í rúllukragapeysu og úlpu í skólann.... Hahahaha... það er örugglega fimmtán stiga hiti úti.
Og prófið kom og prófið leið... Kennarinn náði náttúrulega að spurja um allt sem að ég var ekki 100% viss á, og hann fór aðeins lauslega í í tíma, en ég er samt þokkalega sátt við hann. Maður þurfti nefnilega aðeins að hugsa í prófinu og ákveða hvernig maður ætti að svara. Þannig að þetta var ekki svona bara kapphlaup um að reyna koma öllu sem maður hafði lært undanfarna daga niður á blað.

Ég verð nú að geta þess að ég náði að skrifa vefstjóra mbl.is línu áður en ég fór í prófið. Bréfstúfurinn hljómaði svona:

Góðan daginn,

Ég hef eina spurningu fram að færa til vefstjóra mbl.is. Ég bý nefnilega í
útlöndum, og alltaf þegar vinirnir heima ætla að segja manni fréttir af
Íslandi, þá er viðkvæðið: "Ég, veit, ég las það á mbl"

En nú bregður svo við að það er ýmislegt að gerast í Flugleiðamálum, og það
er ekki sett á vefinn þó það sé birt í Mogganum. Og þetta er einmitt mál
sem við "útlagarnir" sem erum síþreytt á viðskiptaháttum Flugleiða, hefðum
áhuga á að lesa! Hvernig má það vera að þetta sé ekki birt á vefnum?

Kveðja,
Erna Magnúsdóttir


Og viti menn, þegar ég kom úr prófinu beið mín svar:

Við þökkum fyrir þessa ábendingu. Bréfið hefur verið sent til fréttastjóra
netdeildar.

Ekki alveg svarið sem ég var að vonast eftir. Þetta er nú samt ekki tilviljun, að þetta sé ekki birt á vefnum eða hvað. Hvað finnst ykkur lesendum Dagbókarinnar?

Já, það er víst komið nóg af þessu slóri... ég þarf að drífa mig aftur á rannsóknarstofuna að vinna. Það versta er að hann Chuntao sagði mér að það væru fjögurradaga músarungar sem ég mætti kryfja í dag.. Og mig langar það alls ekki. Ég sé ekki tilganginn í því að drepa þær, þar sem ég á bara eftir að vera á labbinu í 3-4 vikur í viðbót og næ aldrei að gera tilraunir með heilasneiðar á þessum tíma. Vonandi kemst ég svo á betri rannsóknarstofu eftir áramót.



þriðjudagur, nóvember 27, 2001
 
Duh.... Ég er að upplifa svolítið núna sem ég hef eiginlega aldrei upplifað áður.... Ég á að vera að lesa undir próf og ég er búin að eyða öllu kvöldinu í að skoða vefsíður Íslendinga hér í Ameríku... Rakst meira að segja á mynd af henni Ingileifu á einni síðunni. Huh... Og rakst á síðuna hennar Árdísar sem er að læra strengjafræði í CalTech, ég kynntist henni í sumar í gegnum Fulbright. Man ekki slóðina á bloggið hennar kemur allt síðar. Jamm, en þetta sem ég hef aldrei upplifað áður... Venjulega hef ég bara getað sest niður og lært, og lært, og svo tekið mér pásu þegar á að taka pásu, og svo bara haldið áfram að læra. Og ef ég hef eitthvað verið að slæpast, þá hefur það yfirleitt ekki verið meira en einn og hálfur tími, kannski aðeins lengur eftir þriggja vikna stöðugan próflestur... En núna VÁ maður. Ég nenni þessu ekki. Punktur. Ég held að þetta sé ellimerki. Finnst ég eiginlega vera búin að taka nóg af prófum á æfinni og langar bara að fara út í rannsóknir á FULLU.
Hluti af vandamálinu er líka þessi blessaði kúrs sem ég er í. Á að vera á svakalega "graduate level", og ef hann er það, þá verð ég bara að segja; Húrra fyrir Háskóla Íslands. Ég er búin að læra meirihlutann af þessu áður, og kennslan var áhugaverðari heima, það var farið yfir meira efni og svo framvegis. Krakkarnir sem ég er með í bekk eru flestir heldur ekkert að drepast úr áhuga. Skrítið, og það í doktorsnámi... En það er sennilega bara aldurinn.. (ojbarasta að heyra í mér... Alger ömmutónn!).
Jæja, maður verður víst að drífa sig í háttinn til þess að vera í essinu sínu í prófinu á morgun!

mánudagur, nóvember 26, 2001
 
Tjáh.....
Við vorum ekki fyrr búin að komast að því að ef við flygjum heim fyrir 19. des, þá kostaði það mikið minna en ella, að líffræðideildin við Columbia ákvað að færa síðasta prófið frá 14. des til 19. desember. Arg... Það varð reyndar uppi fótur og fit í bekknum mínum, því mjög margir voru búnir að bóka flug heim fyrir þann 19, þannig að málin eru í skoðun hjá kennurunum mínum.... Ég bara krossa fingurna og vona að þetta reddist.
Annars getur Mörður bara rölt niður á Grand Central Terminal og farið að pússa skó gegn sanngjörnu gjaldi. Það má pússa ansi marga skó á þremur vikum =)


sunnudagur, nóvember 25, 2001
 
Hún Herdís vinkona var að setja upp Blogg. Það er linkur inn á síðuna hennar hér til vinstri á síðunni okkar. Það er alltaf eitthvað spennandi að gerast hjá Herdísi, en hún er um þessar mundir að ferðast í Argentínu....

 
Ahhhhhh........................
Það var alger "læfseiver" að fá hana Ásthildi í heimsókn á föstudaginn. Hún kom seinnipartinn og það var mikið spjallað yfir eldamennskunni. Anna Hjartar, sem er hér í stjórnsýslufræði við Columbia, kom líka aðeins síðar. Við sátum langt fram á nótt og spjölluðum um heima og geima, fengum fréttir frá Íslandi (og hneyxluðumst á Flugleiðum).
Um hádegisbilið í gær skelltum við okkur svo niður í Chinatown og röltum svo í SoHo í yndislegu veðri það sem eftir lifði dags.
Ég er alveg búin að sjá það að Mörður verður að fá sér vel launaða vinnu og það STRAX!!!! Það er ekkert smá mikið af flottum búðum hér =)
Við kvöddum Ásthildi síðla dags þegar hún hélt til baka til Conneticut, og við hreinlega skriðum heim (þynnkan var farin að segja til sín), og leigðum okkur spólu (Along came a spider. OK mynd, plottið svoldið spes!) og slökktum endanlega á heilanum það sem eftir lifði kvölds. Það var líka alveg nauðsynlegt, því ég þarf svo að eyða deginum með Noeliu vinkonu minni í að stöffa toppstykkið fullt fyrir prófið sem ég fer í á miðvikudaginn. Ó vá, vel á minnst, það er ekkert smá hlýtt hérna. Ég fór á stuttermabolnum í skólann áðann, og ég var að grillast þegar ég kom heim. Þokkalega ljúft!

Þess má geta að við elduðum grænmetislasagne, og Ásthildur bauð upp á rauðvínið með matnum..........yummí.





fimmtudagur, nóvember 22, 2001
 
Já, þá er Þakkargjörðarhátíðin hér í BNA í dag.... (eða þeinksgivíng eins og sumir segja)
Það fer víst ekki framhjá neinum, ég fór á labbið (þ.e. rannsóknarstofuna) í morgunn, og það var ótrúleg værð yfir borginni, og svo þegar ég kom inn á skólalóðinna, þá leið manni eiginlega bara eins og maður væri í Reykjavík á Sunnudagsmorgni... Það var sólskin, og pínu kalt, svona meira þannig að manni fyndist bara loftiði vera ferskt, varla nokkur maður á ferli og það var ÞÖGN.... eða svona eins mikil þögn og það getur orðið í þessari borg. Ég vann á labbinu fram yfir hádegi, og um þrjúleitið birtust Kínverjarnir náttúrulega... það er sko aldrei frí hjá þeim. Í skólanum snýr sólarhringurinn pínu öfugt, og fólk kvartar yfir því að þurfa virkilega að mæta í tíma svona SNEMMA, þ.e. klukkan hálftíu! Og þeir sem eru byrjaðir á doktorsverkefnum, eða eru s.k. póstdokkar, skríða í vinnuna upp úr hádegi og vinna svo fram eftir nóttu. Ég þyki alveg stórskrýtin að mæta á morgnana á labbið þegar það eru ekki tímar, hvað þá að fara að æfa klukkan sjö á morgnana. Ég fer samt kannski að vinna á öðru labbi eftir jól sem er á öðrum "kampus", þar sem læknaskólinn er, og þar er allt annað andrúmsloft, aðseins stressaðara, en fólk mætir þó á morgnana í vinnuna.

Eftir vinnu fórum við Mörður svo í labbitúr í Miðgarði, (eða Sentralpark eins og sumir segja). Það var greinileg hátíðarstemning í gangi. Það var bara einstaka skokkari á ferli og nokkrir hundaeigendur (ásamt hundum sínuim), og bara alger svona jólaþögn... Það er samt enginn kalkúnn í matinn hjá okkur, við poppum kannski bara, og fáum okkur kók með!

Mörður er búinn að fresta öllum plönum um heimferð, enda allt aðrar forsendur orðnar fyrir dvöl hans hér, og loksins eitthvað til þess að vakna til! Niharika, sem ég vinn með, sagði mér líka í gær að maðurinn í endurskoðunarfyrirtækinu í NJ kæmi til borgarinnar í næstu viku og vildi hitta Mörð þá og tala við hann um vinnumál. Þetta fyrirtæki er samt víst svolítið langt í burtu (hahaha.. og við vitum ekkert hvaða fyrirtæki þetta er einu sinni, Niharika hafði ekki hugmynd, en ætlar að spurja mannin sinn að því), sem gæti dregið úr líkunum á því að Mörður fengi vinnu þar. En að minnsta kosti e.ru málin eitthvað komin á skrið.

Við erum í alveg bullandi fýlu út í Flugleiðir þessa dagana. Þeir selja stúdentum miða milli New York og Reykjavíkur allt árið á 64þúsundkall fram og til baka. Um jólin fer verðið hins vegar upp í eitthundraðþúsundkrónur, það er venjulegt fargjald, en stúdentafargjaldið er víst enn hærra! Þetta er nú meira helvítis skítaaparatið. Notfærir sér fatlað fólk og námsmenn til þess að græða á en selur öllum öðrum miðann á afslætti. Ég veit að það er heimskulegt, en ég verð alveg hoppandi BRJÁLUÐ þegar ég hugsa um það.

Hvurnin er það Einar Mar, ert þú ekki með einhver sambönd við Gó? Gætir þú ekki bara reddað svosem eins og einni rellu til þess að sækja okkur Íslendingana sem erum hér í New York... rétt fyrir jól, og skutla okkur til baka einhvern tíman í janúar. Ég er viss um að Gó geta grætt á því og þú fengið þokkaleg umboðslaun og við samt borgað rétt svo helminginn af verðinu sem Æslander setur upp. Huh.. og það hlakkaði í mér þegar ég sá að þeir eru að skila milljarða tapi, en það eri líka heimskulegt, því að auðvitað endar maður bara sjálfur á að borga upp þetta blessaða tap þeirra.

Jæja, það sést á lengd þessa pistils að ég nenni ekki alveg að lesa fyrir próf....
GLEÐILEGA ÞAKKARGJÖRÐARHÁTÍÐ

Oh... btw... það er auðvitað Rokkí vinur okkar sem er orðinn stór strákur....Rocky var frumsýnd árið 1976. Ekki margir áttuðu sig á því. Híhí.


sunnudagur, nóvember 18, 2001
 
Góðan daginn kæru vinir og gleðilegan mánudag!
Það gerðist ekki mikið hér hjá okkur Merði (hársverði... heheheheh), um helgina, en við bíðum næstu viku með eftirvæntingu. Fyrir það fyrsta, þá er Þakkargjörðarhátíðin á fimmtudaginn, og engin kennsla, (sem þýðir nú samt ekki að doktorsnemar séu í einhverju fríi....duh), og svo er hún Ásthildur vinkona að koma í heimsókn á föstudaginn, og við stefnum því að því að gera okkur glaðan dag að því tilefni.
Ég er líka vongóð um að næsta vika verði ekki jafn frústrerandi og sú síðasta hjá mér á rannsóknarstofunni, en í síðustu viku fóru nokkrar kvöldstundir í að læra að afhausa músarunga og ná úr þeim heilanum í einu lagi, til þess að nota í rannsóknir... ojbarasta. Og það gekk vægast sagt ILLA!!!! Í næstu viku verða mýsnar orðnar of stórar, þannig að ég get einbeitt mér að aðeins mannúðlegri tilraunamennsku.


mánudagur, nóvember 05, 2001
 
Gönguferðin var frábær... kærkomin tilbreyting frá borgarlífinu. Við gengum upp á fjallshrygg, og horfðum yfir hæðótt skógivaxið landslagið sem logaði hreint og beint í haustlitum. Svo gengum við eftir hryggnum í skógi og hlustuðum á laufin skrjáfa undir fótum okkar og þytin í laufunum. Allt í kring féllu laufin af trjánum, og hnetur smullu á jörðina hér og þar. Það var gott að labba inni í svölum skóginum, í skjóli frá sólargeislunum. Þetta var óvenjuheitur dagur fyrir þennan árstíma, eða um 20 gráður. Við fylgdum hvítmerktum trjám þar sem leiðin lá niður í gil og svo upp aftur á næsta útsýnisstað, South Beacon Mountain, þar sem tróndi turn úr víravirki, og það var ekki að sökum að spyrja, uppi í turninum blakti bandaríski fáninn við hún, sá annar sem við sáum á leiðinni. Það var líka alveg dæmigert, að í sömu andrá og við komum þarna upp, á hæsta "tindinn" í göngunni, mættum við tveimur gaurum á fjórhjólum! Þegar þarna var komið í sögu, þá höfðum við gengið í um 3 tíma, klukkan var hálftvö og sólin skein enn í heiði.

Við héldum áfram sem leið lá niður í dal og vorum brátt komin niður í skóginn aftur. Við fylgdum nú gulmerktum trjám, en þá kom upp babb í bátinn... stígurinn tók allt í einu krappa beygju alls ekki í samræmi við kortið í bókinni sem við höfðum keypt okkur, og í áttina sem við höfðum ætlað okkur voru nú blámerkt tré. Eftir nokkuð vafstur og hlaup eftir stígunum í landkönnun, tókum við þá ákvörðun að fylgja gulu strikunum út í óvissuna, og greikkuðum heldur sporið, þar sem að lestin í bæinn var væntanleg klukkan fimm. Það voru bara tveir tímar til stefnu. Við örkuðum þarna um skóginn, upp og niður og höfðum eiginlega ekki hugmynd um hvar við vorum, ekkert var útsýnið fyrir háum trjánum, þannig að við treystum bara á merkingarnar. Þreytan var farin að segja til sín, og sólin tekin að lækka á lofti. Um hálf-fimm vorum við svo stödd upp á hæð með útsýni yfir ána og niður á járnbrautarteinana, það var orðið útséð um að við næðum ekki næstu lest í bæinn, heldur þyrftum að ganga niðureftir og bíða eftir sjö-lestinni. Við dokuðum því við þarna upp á tindinum og skiptum síðustu samlokunni á milli okkar og drukkum síðasta vatnssopann og horfðum á blóðrautt sólarlagið (það eru jú líka jákvæðir hlutir við alla þessa mengun). Leiðin lá síðan niður hlíð inn í skóginn aftur, og nú rökkvaði hratt. Við höfðum samt heppnina með okkur og rétt náðum niður á brautarpallinn áður en það dimmdi svo að það yrði erfitt að ganga í skóginum.
Lestarstöðin sú arna var ekki annað en stórt skilti sem á stóð "Breakneck Ridge" og trépallur þar fyrir framan. Við settumst á pallinn úrvinda af þreytu og fórum úr skónum og létum goluna leika við tærnar. Næstu tveir tímar áður en lestin kom liðu svo við það að virða fyrir okkur flugumferðina á stjörnubjörtum himninum og skoða stjörnumerkin, svo að ekki sé talað um að forða sér þegar lestirnar æddu framhjá. Það voru þreyttir, en sælir ferðalangar sem svo loksins skiluðu sér heim á hundraðogþrettánda stræti seint um kvöldið það.

Þess má svo geta að nákvæmari kortin sem Mörður hafði pantað, komu í pósti á mánudeginum eftir, og það kom í ljós að kortið í bókinni okkar var kolvitlaust!




Myndirnar Okkar



Sendið okkur línu


Við erum að fíla:
Heimur hlauparans
Theodore Roosevelt
Dilwale Dulhania le Jayenge
Sigur-Rós
Cesaria Evora
Joe Locke