|
Soffía Stína Herdís Bumbublogg Hlekkir: Drudge Report Sálufélaginn Liverpool The Onion Félagið Ísland-Palestína Columbia Columbia Bio Nýtt blogg --> Gamlir dagar: ![]() |
Kíkið á nýju heimasíðuna og nýja bloggið okkar!
www.ernaogmoddi.com
www.ernaogmoddi.com/blogg
mánudagur, desember 31, 2001
Já, ekki náði ég að baka neina Lúsíuketti í gær, en gerði þetta líka fína tómat-eggaldin gratín, sem sló í gegn. Fólk var greinilega þakklátt fyrir að fá smá grænmetin eftir allt reykta kjötið... Í gær hitti ég svo lífefnafræðigengið á Kaupfélaginu. Það var alveg frábært, mikið rætt um heimsmálin, og við Hákon og Ragga bárum saman bækurnar um doktorsnámið. Við vorum líka sammála um það að hvergi er brauðið betra en á Íslandi. Ég naut þess líka að teyga bjórinn, maður verður nú að nota tækifærið, þegar maður fær eitthvað sterkara en lapið þarna úti í amríku. Heilsan ber þess nú aðeins merki í dag... Í kvöld verður svo svaka partý hérna hjá tengdó, þar sem allri fjölskyldunni er boðið í hátíðarmat, og tertan sem á að sprengja á miðnætti er svo stór að útsýnið ofan af henni ku vera betra en ofan úr Hallgrímskirkjuturni... Það verður jú alltaf að gera betur en í fyrra. Það stefnir sumsagt í mikla kátínu og gleði hjá okkur í kvöld. Gleðilegt ár kæru vinir! Við þökkum allt gamalt og gott og hlökkum til að sjá ykkur hress á nýja árinu! laugardagur, desember 29, 2001
Ég er að hugsa um að baka Lussekatter, fyrir jólaboðið á morgun. Það eru sænskar jólabollur, eða frekar Lúsíubollur. Þetta eru voða góðar gerbollur, frekar sætar á bragðið og alveg heiðgular vegna þess að það er saffran í þeim. Ég bakaði þær milli jóla og nýárs í fyrra, og finnst það ansi sniðugt að gera það aftur núna, svona til þess að búa til smá jólahefð... föstudagur, desember 28, 2001
Hér sit ég eina ferðina enn, að morgni til og íhuga hvort að ég ætti nokkuð að fara að sofa... Búin að lesa helstu fréttir um ástandið á Indlandi og Pakistan og Palestínu... Búin að hringja í kallinn minn og athuga hvort það sé ekki allt í góðu.. Annars, þá var ég í saumaklúbb hjá stelpunum í sjötta emm í kvöld. Nánar tiltekið hjá henni Ásu. Auðvitað var ég síðust út.. en í nokkuð betra líkamsástandi en þegar ég rúllaði þaðan út á laugardagsmorgni í maí síðastliðnum! Það var frábært að hitta stelpurnar og ræða málin, heyra smá slúður (reyndar var ekki mikið af því í kvöld), og heyra nýjustu fréttir. Framundan er brjáluð helgi.... Brúðkaup seinnipartinn (í dag víst...).. og svo bauð Ása (Áslaug Jónasdóttir sem ég kynntist í Köben, til aðgreiningar frá Ásu Bjarnadóttur sem var með mér í bekk í MR), mér heim á laugardagskvöldið, en Guðný Kata ætlar líka að kíkja þangað. Á sunnudaginn er svo jólaboð hjá Hólmfríði og Kristínu, og um kvöldið er lífefnafræðihittíngur... Sumsagt endalaust stuð og frábærir hittíngar framundan! fimmtudagur, desember 27, 2001
Ég held að við séum ekki á New York tíma, við erum einfaldlega á jólafrístíma. Það er kannski ágætt, en ég væri alveg til í að vera bara á Íslenskum tíma. Hann er hentugastur svona þegar maður er á Íslandi. Já, jólafríið er hálfnað og við Mörður erum enn á New York tíma. Ég er reyndar öllu verri en hann og drattast þetta á fætur um tvöleitið á hverjum degi. Það er kannski ágætt, þá verðum við minna þotuþreytt þegar við komum aftur heim. Planið var nú samt að snúa sér, þanning að ég yrði á GMT þegar ég kæmi út aftur og yrði þar af leiðandi alveg ótrúlega árrisul fyrsta mánuðinn eða svo... svona eins og gerðist í haust. Alltaf mætt í gymmið klukkan hálfsjö und alles. Jibbí, jibbí, við fengum snjó! Nú má bara halda áfram að snjóa, þannig að við getum skellt okkur á gönguskíði í næstu viku. Ég var hins vegar alveg búin að gleyma minna skemmtilegum hliðum snjós og kulda... Mér finnst leiðinlegt að skafa snjó af bílum. En ætli ég láti mig nú ekki hafa það í eina viku, enda ekki líklegt að ég lendi í bílsköfunum aftur fyrr en að ári. miðvikudagur, desember 19, 2001
Kirkjubruni Maður má ekki bregða sér til Íslands í smá jólafrí, og þá er allt farið í steik á Manhattan. Haldið þið ekki að stóra flotta kirkjan við endann á götunni okkar hafi brunnið í dag. Sem betur fer er slökkvistöðin bara 10 metrum frá kirkjunni, þannig að þeir hafa verið snöggir á staðinn slökkviliðsmennirnir. Kirkjan heitir Kirkja Heilags Jóhannesar, eða The Cathedral Church of St. John the Divine og var víst ein sú stærsta í Ameríku. Að minnsta kosti segir Mogginn það... ekki lýgur hann. mánudagur, desember 17, 2001
Jæja, þá erum við komin heim að fögru landi ísa. Ferðin gekk nokkuð áfallalaust fyrir sig, en reyndar var klukkutíma seinkun á brottför. Okkur fannst allt benda til þess að það væri af því að áhöfnin var allt of sein á staðinn. A.m.k. mætti crewið ekki fyrr en að það átti að vera búið að loka hliðinu... Við hittum fyrrverandi bekkjarfélaga minn, hann Svein Ingimundarson a.k.a Swönkó, um borð. Hann er búinn að búa í New York í 3 ár, og er í atvinnuleit, en hann lærði auglýsingahönnun þar í borg. Við komum heim í myrkri, og fórum að sofa akkúrat þegar það var að birta, vöknuðum í myrkri og það er enn myrkur. Það er búið að vera myrkur hjá okkur síðan seinnipartinn í gær... Furðulegt. Við ákváðum að skreppa í kvöld og fá okkur síðbúinn dögurð á Kaffibrennslunni fyrr í kvöld. Það var ekki laust við að við fengjum áfall þegar við stigum út úr bifreiðinni á malbikið í Pósthússtræti.... Fyrst fattaði ég ekki hvað var svona skrýtið, en svo rann upp fyrir mér ljós.... HVAR ER ALLT FÓLKIÐ? sunnudagur, desember 16, 2001
Helgin Þá eru bara sex tímar þar til við höldum af stað heim... Í tilefni af því sit ég hér og hlusta á Rás 2, og íhuga hvort ég eigi að leggja í atlögu no. 2 í niðurpökkun. Prófið á föstudaginn var skrautlegt, vægast sagt. Það voru allir brjálaðir eftir það. Ég hef persónulega aldrei séð annað eins. Ég nenni ekki að skrifa meira um það, þá fer ég bara í fýlu. Eftir prófið var svo próflokadjamm hjá bekknum, og það runnu nokkrir tekíla í tónik um kverkar mínar niðri á SoHa á föstudaginn. SoHa er bar hérna rétt hjá og ef þið haldið að ég hafi skrifað þetta vitlaust, þá er það ekki rétt. Eins og SoHo þýðir South of Houston Street, þá þýðir SoHa bara einfaldlega South of Harlem! Ég var merkilega hress í gær þrátt fyrir alla þessa t&t, og við Mörður skelltum okkur í búðaráp. Við fórum niður á 72. og B-way, og keyptum nokkrar jólagjafir í viðbót, og svo mátti hann Mörður elta mig búð úr búð í fatamátun. Það var kærkomin tilbreyting fyrir mig að þurfa ekki að vera að hugsa um labbvinnu eða próf, en ég er ekki alveg viss um að Mörður hafi skemmt sér eins vel og ég við þessa fatamátun mína! Við fengum okkur hádegismat á svona típískum New York dæner, þar sem skrautið inni voru ljósaseríur og gerfiblóm. Þjónninn var með risaýstru og kjúllinn var kyrfilega þurrsteiktur. Namminamm. Í gærkvöld byrjuðum við svo að pakka og kláruðum að skrifa jólakortin yfir nokkrum öllurum. Eins og þið sjáið, þá erum við strax farin að byggja upp áfengisþolið fyrir djammið í jólafríinu... Það eina sem ég hef við þetta að bæta að sinni er, ví lúkk forvard to sííng jú next vík... föstudagur, desember 14, 2001
Bara nokkrir klukkutímar eftir og þá er ég búin!!! Ég má ráða hvenær ég tek prófið í dag, ég má byrja milli klukkan eitt og hálfsex, en bara taka 3 tíma í að leysa prófið. Ég ætla að byrja klukkan eitt. fimmtudagur, desember 13, 2001
ARRRRRGGGGGG! Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði í skólanum er ég stressuð fyrir próf. Ég held samt að það hafi ansi mikið að gera með það að ég er búin að verja 7 klukkustunum í tímasókn í dag, alltsaman í "biophysics" kúrsinum okkar. Það gafst svo lítill tími fyrir þennan kúrs, að það var farið í allt á hundavaði, endað á mega-degi í dag, svo er upprifjun klukkan tíu í fyrramálið og prófið eftir hádegi.. Alger snilld. Sem betur fer hef ég farið í allt þetta efni áður, þannig að þetta er að mestu upprifjun, en John Hunt hefur samt einstakt lag á að semja níðþung próf.... Mörður er úti að kaupa pizzu handa frústreraðri eiginkonu sinni, (það er alveg frábær þjónusta í gangi, þegar ég kom heim var hann búin að þrífa alla íbúðina hátt og lágt þessi elska). og eftir pizzuátið hef ég vonandi næga orku til þess að læra fyrir þetta blessaða próf. miðvikudagur, desember 12, 2001
Við erum loksins búin að fara með filmuna okkar í framköllun. Hér er sýnishorn úr ferðinni okkar á Breakneck Ridge. (Sjá fyrstu dagana í dagbókinni). Það kemur meira seinna. Vatn í fastfasa Ekki góðar fréttir sem manni berast að heiman. Er það rétt að allur snjórinn sé bráðnaður? Ég sem var búin að verja tveimur vikum í að hlakka til að koma heim og heyra snjóinn braka undan fótum mér. Finna snjólykt og smakka snjóbragð. Og ekki má gleyma: að fara á gönguskíði. Hvernig er það nú annars, er ekki hægt að redda smá snjó fyrir okkur, þó ekki sé nema bara rétt á mánudaginn? Er ekki einhver af lesendum þessarar dagbókar sem hefur ítök uppi á Veðurstofu Íslands? Eða á ég kannski bara að skilja dúnúlpuna eftir í Ameríku? Ég ætti kannski að gera það, því þá verður pottþétt ískalt og fullt af snjó á Íslandi um jólin. þriðjudagur, desember 11, 2001
Júbíkítín Það var nokkuð gaman í skólanum í dag. Eftir hádegi fór ég nefnilega á fyrirlestur um ubiquitin niðurbrotsferlið. Ef fyrrverandi bekkjarfélagar mínir úr lífefnafræðinni lesa þetta, þá vita þeir að það var sko GAMAN hjá mér í dag. Fyrirlesarinn heitir Alexander Varshavski og tilefni fyrirlestrarins var að Columbia University var að veita honum hin svokölluðu Horwitz verðlaun fyrir rannsóknarárangur hans. Þess má geta að meira en helmingur Horwitz verðlaunahafa hafa einmitt líka fengið Nóbelsverðlaun.... Það sem mér fannst eiginlega merkilegast við þennan fyrirlestur var samt sem áður kynning Jim Manleys á Varshavski. Hann sagði að hann hafi fyrst heyrt á hann minnst þegar Jim sjálfur var póstdokk í MIT, og inn á labbið komu 2 frakkaklæddir menn, sem er allóvanalegt á líffræðirannsóknarstofu. Þeir sveifluðu FBI skilríkjum og spurðu eftir Alexander Varshavski. Síðar kom í ljós að Varshavski hafði flúið Rússland í bílskotti, og þvínæst endað í Ameríku og gisti um þessar mundir hjá þáverandi yfirmanni Manleys.. Þetta er örugglega flottasta kynning á fyrilestri sem ég hef heyrt. mánudagur, desember 10, 2001
Ég var að bæta við tveimur linkum á Bloggið okkar. Annað er Laukurinn, sem kemur út vikulega hér í NYC, en er líka vefrit. Oft fyndið, en líka slatti mikil vitleysa. Hitt er hvorki meira né minna en Bloggið hans Sesars. Ég er búin að lesa hana í c.a. tvær vikur núna og er frekar impressed. Hver nennir svona kjaftæði? Herdísi datt í hug að þetta væri Ragnheiður Torfa... en okkur fannst það þó ansi ólíklegt, því hún hefur víst ekki mikið skopskyn... hún gæti náttúrulega verið að gera þetta í fúlustu alvöru.... Búrhvalir og varmafræði Já hvað koma Búrhvalir varmafræði við? Tjah.. ég er endanlega komin á þá skoðun að eðlisefnafræðikennarinn minn sé pínu klikkaður. Hann þurfti nefnilega að minnast á mýoglóbín úr búrhvölum í tímanum áðan, vegna þess að það hefur ákveðna varmafræðilega eiginleika. Og fylgdi því eftir með ræðu um það hvað hann væri á móti hvalveiðum, af því að hvalir væru svo intelligent með meiru... Og svo eyddi hann líka smá púðri í að skíta út Noreg og Japan í því samhengi. Maður ætti kannski að gefa honum miða með Herjólfi til að hann geti skoðað hann Keikó okkar... Í síðustu viku slysaðist hann líka til þess að segja að það væri enginn guð til sem stjórnaði því hvaða hlutir gerðust sjálfkrafa, heldur væri það blessuð entrópían (óreiðan) sem strjórnaði þessu öllu saman... Eftir frímínútur fattaði hann svo hvað hann hafði sagt, og hann eyddi dýrmætum tíma í að tala um að það gæti alveg verið til guð.... Ég hef bara eitt að segja: Hvílíkur kverúlant. sunnudagur, desember 09, 2001
Úff, hausinn á mér er að springa úr óreiðu... Þetta er búið að vera annars alveghreint frábær dagur. Ég byrjaði á því að læra, og svo ætluðu stelpurnar í bekknum mínum, Noelia, Vasoo og Ana að koma og læra með mér. Á endanum mætti engin nema Vasoo (Vasupradah, indverska bekkjarsystir mín), og við fórum eina umferð yfir óvissuatriði í námsefninu, og enduðum á kaffihúsi og spjölluðum í klukkutíma. Þegar Vasoo var rétt í þann mund að fara, mætti Noelia, argentíska bekkjarsystir mín, á Starbucks og ég kjaftaði við hana allan seinnipartinn, undir því yfirskini að við værum að læra fyrir próf. Þokkalegt vítamín fyrir sálina! Og til þess að auka nú aðeins á blaðrið, þá kjaftaði ég alveg heillengi við hann Gísla Sigmunds. og hana Herdísi á emmessenninu... Annars þá er hún Herdís nýbúin að uppfæra bloggið sitt , með nýjum ævintýrasögum frá Suður Ameríku. Svona fyrst ég er að tala um bekkinn minn, þá getið þið kynnst honum betur hér. Sumsagt... All quiet on the western front... laugardagur, desember 08, 2001
Flíspeysuveður Í dag er Kaliforníustemningunni í New York formlega lokið, því nú er komið flíspeysuveður. Það er reyndar bara alveg ágætt að venja sig við aðeins kaldara veður áður en maður skellir sér í snjóinn á Íslandi. Í dag er góður dagur, því ég er búin með síðasta verkefnið mitt á labbinu hjá Audrey Minden, og get því einbeitt mér að því að læra um eðlisefnafræði og byggingu prótína í næstu viku. David, gaur sem er á labbinu sem ég verð á á næsta misseri, kom til mín á Gleðitíma (Happy Hour), líffræðideildarinnar og var að segja mér hvað hann væri ánægður á labbinu. Frábært! Ég þurfti sko algerlega á því að halda að heyra það. Þannig að eins og hann Birtingur sagði; Allt er gott, allt er í stakasta lagi og allt stefnir að hinu besta...(eða eitthvað svoleiðis). fimmtudagur, desember 06, 2001
Í gær var sögulegur dagur í mínum vísindaferli, þar sem ég gerði mitt fyrsta Western Blot. Mér fannst það alveg rosalega gaman, og -já, ég er nörd. Í dag fór ég í viðtal við hjá sem heitir Kathryn Calame, en ég verð sennilega að vinna hjá henni á næsta misseri. Hún er ónæmisfræðingur, og skoðar boðflutning í frumum í tengslum við þroskun á B-frumum, sem er ein tegund hvítra blóðkorna. Hún er að gera mjög skemmtilega hluti, en hún vill endilega að ég vinni í samvinnu við Martin Chalfie en hann vinnur einmitt við að rannsaka orma. Nánar tiltekið C.elegans. Eitt genanna sem hún er að skoða finnst nefnilega líka í ormum.... Ég get ekki sagt að ég sé ofuræst í að fara að fikta í sjálflýsandi ormum á næsta misseri, en ætla samt að hugsa málið. mánudagur, desember 03, 2001
Krullur Það er alveg ótrúlegt hvað það eru margir menn hér með sítt krullað hár..... Ég var til dæmis að æfa áðan, og sá að minnsta kosti fjóra þannig fola í gymminu. Þessir menn eiga það líka allir sammerkt að nota svitaband þegar þeir æfa, og setja lubbann náttúrulega ekki í tagl við æfingar sínar. -Það má auðvitað ekki draga úr kynþokkanum. Það var reyndar einn þeirra sem sló öll met og var með lubbann í svona "sítt að aftan" stíl í þokkabót. Það er reyndar oft algert bíó að horfa á fólk hérna, í borginni. Mjög mikið af fólkinu, þá sérstaklega því unga, er mjög "töff" klætt, en hér sér maður líka allan skalann, fólk í snjóþvegnu, fólk með flöskubotnagleraugu, fólk sem er algerlega ekki að fatta að áttundi áratugurinn er búinn og liðinn, fólk sem fattar ekki að sá níundi er einnig liðinn, og tíundi á bak og burt... En ég verð að segja það, mér finnst gaurarnir með síðu krullurnar alltaf flottastir. sunnudagur, desember 02, 2001
Ekkert merkilegt Þessi sunnudagur kom og fór við vinnu, störf, líkamsrækt og lærdóm. Ég er bara næstumþví stolt af mér, því að í dag er ég búin að slæpast minna en flesta aðra sunnudaga undanfarið. Ég var rosa dugleg að rifja upp jafnólíka hluti og eðlisefnafræði og ónæmisfræði, mætti í vinnuna, og fór meira að segja í gymmið að hlaupa og lyfta. Allt í einu finnst mér ég vera lifandi aftur í stað þess að lyppast um heiminn í doða og sinnuleysi. Ég er svo fegin að þetta misseri er senn á enda. Það eru erfiðar tvær vikur framundan, en ég get ekki beðið eftir því að vera laus af labbinu sem ég er að vinna núna. Það er eitthvað svo "ómótíverandi" umhverfi þar. Ég sem hélt áður að ég vissi hvað ég hefði verið heppin með vinnu og vinnufélaga hingað til, en núna loksins VEIT ég það! Þetta stendur nú allt saman til bóta, það verður heilmikil orkusöfnun í gangi heima á Íslandi í jólafríinu (verst að ég get ekki tekið með mér auka batterí til að hlaða, svona til notkunar á endasprettinum á næsta misseri) og það stefnir svo allt í það að ég lendi á fínu labbi eftir jól, og kúrsarnir eru víst eitthvað skemmtilegri þá líka..... Jæja, ég verð nú að halda dugnaðinum áfram, maður verður nú að nýta orkuköstin þegar þau koma... laugardagur, desember 01, 2001
Jólagjafablíða Úfff.... ég er alveg gersamlega, algerlega úrvinda. Eins og venjulega, að því er virðist, því ég skrifa um fátt annað hér en hvað ég er þreytt. Þessi dagur er annars búinn að vera strórfínn. Við Mörður skelltum okkur nefnilega í bæinn í dag og keyptum nokkrar jólagjafir. Við sem vorum ekkert smá montin í fyrra að hafa klárað jólagjafainnkaupin viku fyrir jól, en í ár sláum við öll met. Við erum reyndar ekki alveg búin með innkaupin, en komin langt á veg. Ég verð líka að segja að stemmningin við jólagjafasjopperí er allt önnur í ár heldur en við hin örvæntingafullu hlaup okkar um Kringluna undanfarin ár. Við fórum bara á stuttermabolum niður í bæ og sprönguðum um í yfir 20 stiga hita... Það var næstumþví of heitt fyrir mig, af því að ég asnaðist til þess að fara í gallabuxur. Ég læri þetta aldrei, alltaf alveg að kafna úr hita! Það er nú samt svo mikil mannmergð alltaf niðri í bæ, að maður verður margfalt þreyttari en við nokkuð Kringluráp. Ég fór inn í ónefnda búð að kaupa gjöf, og Mörður ákvað að bíða fyrir utan á meðan. Hann sagðist hafa næstum því orðið sjóveikur á því að horfa á allt fólkið streyma framhjá, á ofsahraða, að því er virtist! Og nú er komið laugardagskvöld og ég ætla enn einu sinni að vera nörd og vera heima og koma skipulagi á gögnin mín.... |
|