|
Soffía Stína Herdís Bumbublogg Hlekkir: Drudge Report Sálufélaginn Liverpool The Onion Félagið Ísland-Palestína Columbia Columbia Bio Nýtt blogg --> Gamlir dagar: ![]() |
Kíkið á nýju heimasíðuna og nýja bloggið okkar!
www.ernaogmoddi.com
www.ernaogmoddi.com/blogg
þriðjudagur, janúar 29, 2002
Góðan og blessaðan daginn! Ég vona að þið lesendur góðir, hafið það jafnfínt og ég..... ehehehehhehehehehe..... Ég er um það bil komin upp fyrir haus í vinnu, en það er líka eitt það skemmtilegasta ástand sem ég veit, svo fremi sem vinnan er áhugaverð. Verst að Mörður hefur ekki alveg jafnmikið að gera og ég, þannig að ég fæ eiginlega samviskubit þegar ég hugsa til þess að ég hafi verið að skrá mig í valkúrs í ónæmisfræði. Kúrsinn sá ætti nú ekki að vera mjög mikið mál fyrir mig, þar sem bókin sem er lesin og efnið sem er farið yfir er það sama og í ónæmisfræðikúrsinum sem ég tók heima í Háskólanum. Nú, hugsið þið þá.. tilhvers þá að vera að þessu veseni, og skilja kallinn eftir einan heima á hverjum degi til þess að læra gamalt efni upp á nýtt. Jú, ég verð nefnilega að taka þennan kúrs til þess að mega taka flóknari kúrsa í ónæmisfræði, og þá er líka bara fínt að taka hann núna á meðan ég er bara í svona litlu sérverkefni á labbinu og ekki komin í alvöru doktorsverkefni. Ég hef sagt það áður og ég segi það nú; Háskóli Íslands er bara ansi merkilegur pappír. Að minnsta kosti ef maður fer í framhaldsnám til Ameríku. Það er fyrst núna í janúar að ég er að lesa eitthvað sem ég hef ekki lesið áður, og meira að segja valkúrsarnir eru á svipuðu plani og þriðja árs kúrsarnir heima -Áfram Ísland! sunnudagur, janúar 27, 2002
Blíða og innkaup Getur það verið að ég hafi farið út að hlaupa fyrir viku síðan í snjó og svo aftur í dag í 15 stiga hita (já á selsíuskvarða og allt!)?!!! Ég á eiginlega bágt með að trúa því sjálf, en þetta er bláköld (eða sjóðheit) staðreynd. Veðrið hefur ósegjanlega áhrif á hlaupaformið þessa dagana sem barasta eykst og eykst og eykst. Það fóru nokkuð færri fram úr mér í dag í garðinum, en ég fór í þetta skiptið samt aðeins fram úr göngufólki... Við hjónin (hehehe.. mér finnst alltaf svo fyndið að skrifa þetta...), röltum út í búð áðan, og viti menn, það var troðið út úr dyrum. Við létum það samt ekki aftra okkur í innkaupunum, og sentumst um búðina að leita að hinu og þessum varningnum. Eitt af því sem við ætluðum að kaupa var súrmjólk. Það olli okkur nokkrum heilabrotum, og við skimuðum alla kælana í búðinni í leit að súrmjólkinni. Loksins fann ég hana í brúsa í jógúrthillunni, og hún hét "Plain kefir with FOS"!!!! Já, það var ekki nafnið sem setti mig á sporið, heldur las ég einfaldlega innihaldslýsinguna á öllu sem var í hillunni og var með "plain" í nafninu, þ.e. ekki með bragðefnum. Af þessu dæmi getið þið örugglega ímyndað ykkur hvaða tími getur farið í innkaupin hjá okkur þegar okkur vantar eitthvað ákveðið sem við höfum ekki keypt áður. Það hjálpar heldur ekki að þurfa að skoða allar hillur í búðinni þegar maður þarf næstum því að olnboga sig um búðina. En þrátt fyrir þetta allt, þá er það bara nokkuð jákvæð reynsla að fara út í búð hér. Það eru allir svo þolinmóðir. Fólk segir kurteislega exkjúsmí þegar það þarf að komast framhjá, og svo ef maður er fyrir einhverjum, þá bara bíður sá hinn sami, oft með bros á vör, eftir því að maður færi sig. Þannig að þó að búðin virðist troðin, þá er ekki hægt að segja að um troðning sé að ræða. Ég verð að segja ég - litla íslenska konan, hef lært mikið í mannasiðum og þolinmæði í innkaupaferðum undanfarinna mánuða. laugardagur, janúar 26, 2002
Dajamm Við fórum í partí til Kidda og Ingu í gær. Þau eru nemendur í Columbia eins og ég, hún í Evrópufræðum og hann í eðlisfræði. Í partýinu hittum við Einar Frey og Ísoldu, Bjössa vin hans Einars sem er hér í arkitektúr og Huldu sem er í NYU í sálfræði og Önnu Hjartar, en hún er í MPA í Columbia. Við sötruðum bjór og spjölluðum frameftir kveldi og borðuðum kjúklingavængi a'la Inga Maja... Síðan um tvöleitið skellti hópurinn sér á SoHa barinn á Amsterdam Avenue. Þar var sveitt stemning, brjálað stuð. Við þurftum hreinlega að olnboga okkur inn í þvöguna, og dömurnar voru komnar upp á barborðið eins og Bjössi hefði orðað það. Stelpurnar voru svo sniðugar að finna fyrir okkur sófa til að setjast í og við virtum fyrir okkur samkunduna þaðan. Svo byrjuðu einhverjir litlir strákar að reyna við hana Ingu, þeir sögðust vera 22 ára, en litu ekki deginum eldri en 19 út. hahahahahah....... Það varð heldur ekki leiðinlegt þegar Kiddi fór að dansa við þessa gaura með þokkafullum sveiflum, og þeir héldu að þeir væru að keppa við hann um hylli Ingu. Mér finnst alltaf fínt að koma þarna inn, ég fæ mér alltaf tequila í tónik með lime og dilla mér við tónlistina. Tónlistin þarna er góð (reyndar alltaf sömu lögin, en hvað um það). Við hjónakornin löbbuðum svo heim um hálffjögur, en komum við á Koronet pizza og fengum okkur sitt hvora jumbo-pitsusneiðar (jáh.. þær eru Jumbo). Heilsan er góð í dag og ég er á leiðinni í vinnuna, að gera enn eitt QPCRið og svo bara venjulegt PCR líka.. jibbí!!!! miðvikudagur, janúar 23, 2002
þriðjudagur, janúar 22, 2002
Perl fyrir byrjendur Ég fór í fyrsta tímann minn í Computational Genomics í dag. Það var ansi áhugavert. Stofan ein og sér var áhugaverð. Hún var á stærð við stofurnar á neðstu hæðinni í VR2, en það sem var óvenjulegt var að það voru 9 sjónvarpstæki inn í stofunni. Í stofunni var líka myndavél sem beindist alltaf að kennaranum, samg hvar hún stóð, og svo birtust Power Point skyggnurnar hennar á skjánum. Frekar fríkað. Hún hlýtur að hafa verið með einhvers konar sendi á sér fyrst að myndavélin vissi alltaf hvar hún væri. Ég fékk satt að segja pínu sjokk þegar tíminn byrjaði, því að okkur var sagt að við yrðum að hafa "solid" undirstöðu í forritun fyrir námskeiðið. Úff. Mín forritunarafrek einkennast af nokkrum makkróum sem ég hef skrifað í Excel og svo smá HTML fikti. Sumsagt, ég kann næstum ekkert í forritun. Þar sem meirihluti fyrirlestrarins var kynning að líffræði fyrir tölvunarfræðinema, varði ég því sem eftir lifði fyrirlestrar í að velta því fyrir mér hvort að ég ætti bara að hætta við allt saman. Fyrir það fyrsta, þá langar mig hreint ekki að koma aftur með skottið á milli fótanna til námsráðgjafans míns og segja henni að ég sé aftur hætt við að taka valnámskeið. Í öðru lagi hefur mig lengi langað til þess að læra eitthvað í "Bioinformatics" (mér leiðist orðið lífupplýsingatækni), og í þriðja lagi þá má segja að úrvinnsla af því tagi sem maður lærir á svona námskeiði sé það sem koma skal í lífvísindunum. Þannig að það er margt sem mælir með því að ég taki þetta námskeið. Á móti kemur hins vegar að það verður örugglega mikið vinnuálag á mér á rannsóknarstofunni á þessu misseri, og það bætir ekki úr skák að vera þar að auki að kljást við að læra forritun frá grunni meðfram svona stóru námskeiði. ARG!!!!!!!!! Ég kíkti því á netið þegar ég kom heim og komst að því að það væri til bók um Perl forritun, sem er sérstaklega skrifuð fyrir líffræðinga sem eru að kljást við "bioinformatics". Þannig að nú ætla ég að setjast upp í sófa með te og vatn og góða tónlist í eyrunum og sökkva mér ofan í bókina Beginning Perl for Bioinformatics. Eftir þá lesningu sé ég kannski hvort að ég á framtíð fyrir mér í þessum bisniss. mánudagur, janúar 21, 2002
Fyrsta atvinnuviðtalið Það er ansi spennuþrungið andrúmsloftið heima hjá okkur hjónakornunum núna, þar sem það var hringt í Mörð seinnipartinn í dag og hann beðinn um að mæta í atvinnuviðtal á morgun. Við settum auðvitað plan A í gang og brugðum okkur af bæ til þess að finna bindi við hæfi á kallinn. Það er nefnilega kúnst að velja bindi fyrir atvinnuviðtal, því að það verður að vera smekklegt, en alls ekki of áberandi. Síðan við komum heim úr bænum erum við búin að "brainstorma" og reyna að láta okkur detta í hug allar mögulegar spurningar sem eru dæmigerðar fyrir svona viðtal, og svo fórum við í svona þykjustuleik, þar sem ég tók viðtal við Mörð. Það var ansi lærdómsríkt fyrir hann, því nú veit hann að hann má ekki kalla konuna sem tekur viðtalið "bitch" og það er ekki æskilegt að bora í nefið allan tímann sem maður er í viðtali. Svona að öllu gríni slepptu, þá erum við ansi spennt bæði tvö, og það er náttúrulega léttir fyrir Mörð að vera loksins farinn að fá svör við öllum þessum atvinnuumsóknum sem hann er búinn að senda út um allt. laugardagur, janúar 19, 2002
Já, ég gleymdi alveg að segja ykkur frá því áðan, að við hjónakornin fórum út að hlaupa í Central Park. Ég er reyndar enn að stíga upp úr kvefi og með óvenjuþungan rass, þannig að Mörður bara gersamlega stakk mig af... Ég þarf því að fara að herða mig í hlaupunum og kannski megra aðeins af mér þennan þunga rass. En það er önnur saga. Það var samt svo gaman af því að fyrir réttri viku sagði ykkur frá því að ég hefði farið í stuttbuxnaveðri út að hlaupa, og svo fór ég sama hringinn einhvern morguninn í vikunni og þá var þoka yfir lóninu, og núna var barasta komin snjókoma. Það er allt orðið skjannahvítt úti. Og ég sem hélt að það væri umhleypingasamt á Íslandi en þetta getur þá gerst í útlöndum líka!!! Já, ég veit það, ég er stundum svolítið græn, því auðvitað benti hún Stína mér á að það væri hugmyndin hjá honum Hallgrími H. að herma eftir Halldóri Laxness og skrifa söguhetjuna sína inn í Sjálfstætt fólk. Ég er um það bil hálfnuð með bókina núna, en finnst hún vera orðin frekar langdregin, það dugar eiginlega ekki í fimmhundruð blaðsíður þessi hótfyndni hans Hallgríms. Þá finnst mér nú húmor Laxa sjálfs skemmtilegri og hnitmiðaðri. Ég er að hugsa um að vera ekkert að klára þessa bók, ég eiginlega nenni því ekki. Sorglegt, því mér fannst hún byrja svo vel. Annars rakst ég á eftirfarandi lesendabréf á strikinu og er bara nokkuð sammála, en finnst þetta kannski svolítið hörð aðför. Þannig fór það nú með tilraun mína til þess að koma af stað bókmenntaumræðu meðal lesenda dagbókarinnar, hahaha... fimmtudagur, janúar 17, 2002
Ohhh... ég vildi að ég ætti afmæli á hverjum degi... Þegar ég vaknaði var Mörður að gera brauð í brauðvélinni og hafði keypt ólífur og marmelaði handa mér og svo var nýlagað kaffi á könnunni. Ahhhhhh...... Á hottmeilinu mínu biðu svo nokkrar afmæliskveðjur og ég fékk nokkrar afmælisgjafir líka! Takk =) Ég fór á labbið um hádegisbilið, og það vildi svo til að Cet átti afmæli. Ég var því ekkert að trana mér fram með mitt eigið afmæli, en óskaði honum pent til hamingju. Mér finnst samt ekki alveg vera afmælið mitt nema það sé allt á kafi í snjó og ískalt. Ég var komin snemma heim og þá beið blómvöndur frá elsku manninum mínum eftir mér á skrifborðinu mínu og þegar hann kom heim úr svassinu, fékk ég pakka frá honum. Hann gaf mér alveg ógeðslega langan brúnan trefil með ljósbrúnum vösum á sitthvorum endanum, þannig að þegar ég hef vafið treflinum um hálsinn þá get ég stungið höndunum í vasana! Þannig að nú er ég eins og hinir New Yorkerarnir, með langan skrautlegan trefil í vafningum um hálsinn. Jibbí.... Við fórum svo seinnipartinn á The Hungarian Pastry Shop, sem er mjög kósí kaffihús á Amsterdam Avenue, og fengum okkur afmælissúkkulaðiköku og kaffi. Ekki versnaði það svo í kvöld, þegar við fórum og renndum alveg blint í sjóinn og fórum á franskan veitingastað á 109. og Amsterdam. Ekki alveg staðsetningin fyrir eðal veitingastað finnst manni svona fyrirfram, en kvöldið var alveg æðislegt. Við fengum alveg ljúffengan mat og sporðrenndum honum með Talbot, kalifornísku hvítvíni, þjónustan var fín og veitingastaðurinn mjög kósí og rómó. Reyndar sagði Mörður mér svo frá því að byggingin hinum megin við götuna væri fangelsi, sem gerði það eiginlega ennþá ótrúlegra að staðurinn væri svona góður. Við getum því mælt með Ten-28 Bistro á Amsterdam Avenue númer 1028. miðvikudagur, janúar 16, 2002
Það liggur svo ljómandi vel á mér þessa dagana. Fyrir því eru margar ástæður. Sú fyrsta er að það er bara nokkuð gaman á nýja labbinu mínu. Þónokkuð gaman. Önnur ástæðan er að mitt fyrsta rauntíma-PCR heppnaðist mjög vel, sem einfaldar mikið vinnuna næstu vikuna og eykur líkurnar á því að ég fái góðar niðurstöður eftir nokkra mánuði þónokkuð. En ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið... Þriðja ástæðan er brauðvélin. Það er svo gott fyrir sálina að fá nýbakað brauð tvisvar á dag. Namm. Þetta er líka búið að vera letivika hjá mér. Alger letivika. Ég hef ekkert þurft að mæta á labbið fyrr en eftir hádegi, þannig að ég er búin að taka því rólega á morgnana, fara út að hlaupa og horfa á sjónvarpið og lesa skáldsögur. Hvíla mig aðeins fyrir geðveikina sem byrjar í næstu viku. Ég ákvað nefnilega að bæta á mig valkúrsi í lífupplýsingatækni, eða bioinformatics, eins og það heitir uppá ensku. Þetta er kúrs sem er kenndur í tölvunarfræðideildinni hér og er fyrir bæði líffræðinemendur og tölvunarfræðinemendur. Annars er ég orðin mjög spennt fyrir því að byrja á fullu aftur í skólanum. Ég hlakka líka til þess að hitta skólafélagana aftur og bera saman bækurnar um jólafríið við þá. Sumsagt, lífið er bara djollí gott þessa dagana :) mánudagur, janúar 14, 2002
Höfundur Íslands Ég er búin að vera að lesa bókina Höfundur Íslands, eftir hann Hallgrím Helgason. Ég er svona hálfnuð, og finnst bókin meinfyndin. Ég veit samt ekki hvort það er af ásettu ráði að hann Halli H. stelur settinu úr Sjálfstæðu fólki af honum Halldóri Laxness. Ég meina sko, Bjartur var svona álíka sérvitur og hann Hrólfur, og Ásta Sóllilja var ekki dóttir Bjarts var það? Ekki frekar en Eivís er dóttir Hrólfs.... Og það sem kórónar hlutina er að Höfundur Íslands gerist á Austurlandi, já nánar tiltekið á Jökuldal. Hmmm... Þannig að ég er í smá vafa um hvað mér á að finnast um þetta (svona burtséð frá því að pirra mig á því að muna ekki eftir bæ á Jökuldal sem heitir Skriða). Annað hvort er þetta alger snilld hjá Hallgrími, að taka sögusviðið úr Sjálfstæðu fólki og snúa svolítið upp á það og út úr því og gera úr því algeran farsa, eða þá að hann er að gera þetta ómeðvitað (sem mér finnst nú ólíklegt). Hann þarf líka lítið fyrir persónusköpun að hafa, maður sér bara fyrir sér Bjart upp á Jökuldalsheiðinni, þegar Hrólfi er lýst... En aðal málið í sögunni er náttúrulega höfundurinn, og það er kannski bara málið. Þ.e. að taka kunnuglega sögu og bulla svolítið í kringum hana og setja svo höfundinn inn og þá gerist galdurinn. Ohhh.. það getur líka þokkalega verið að ég sé að misskilja þetta allt. Hvað finnst þér? Ef þú hefur lesið áðurnefndar bækur, smelltu þá endilega á komment-linkinn, hér að neðan og segðu mér þína skoðun! laugardagur, janúar 12, 2002
Central Park Já, það bregst ekki að fara út að hlaupa í Central Park. Það kemur mér alltaf í alveg ljómandi gott skap. Fyrir það fyrsta, þá finnst mér ég ekkert hlaupa neitt svo hægt þegar ég hleyp þar. Ástæðan er sú að hlaupagikkirnir í Miðgarðinum eru allt frá því að vera stórir og stæltir svertingjabolar, í að vera bleikar og gráhærðar kerlingar. Innan um er líka fólk svo frjálslega vaxið, að þegar það er á fullum spretti gerir það ekki mikið meira en að hlaupa á staðnum. Þannig að þegar ég hleyp í kringum vatnsbólið, þá næ ég að fara fram úr fullt af hlaupurum... og loka svo bara augunum þegar þeir faria fram úr mér (ehemmm, já ég næ nú að hafa augun eitthvað opin á þessum hring). Í dag var líka einstaklega gaman að fara út að hlaupa, því veðrið er svo gott. Það er sko átta stiga hiti og sólin skín í heiði. Enda voru margir á ferli í garðinum. Hlaupafólk, fólk á línuskautum, fólk í göngutúr, fólk að viðra hundana, túristar að taka myndir, fólk í tennis og fólk í fótbolta, fólk í hafnarbolta og þannig mætti lengi telja. Fyndnastir fannst mér þó gaurarnir sem vilja vera einhvers staðar allt annars staðar. Já, ég get sko sagt það af fullri sannfæringu án þess að hafa talað við þá, eða þekkja þá nokkurn skapaðan hlut. Þeir voru nefnilega með hjálma á hausnum og í skíðahönskum með skíðastafi og á fótunum höfðu þeir skíðaskó. En í stað þess að hafa skíði á skíðaskónum, voru þeir á þartilgerðum spýtum með hjólum á sitthvorum endanum. Svo hreyfðu þeir sig eins og þeir væru á gönguskíðum. Þeir litu sumsagt alveghreint þokkalega gáfulega út. Ég leyfi mér því að fullyrða, að menn sem þykjast vera á skíðum í sól og blíðu í miðri stórborg, með hjólaspýtur á fótunum, hljóti að óska þess að þeir væru einhvers staðar annars staðar. föstudagur, janúar 11, 2002
Annar Rannsóknarstofudagurinn Ég var að koma af labbinu, annan daginn í röð. Þetta er ekkert smá fínt. Það eru allir svo næs. Og ég gleymdi að segja ykkur frá útsýninu frá skrifborðinu mínu. Það er sko við glugga upp á 11. hæð, þannig að ég horfi suður eftir allri eyjunni. Þegar ég mætti í morgun sást ekki mikið, því það var rigning, en það var frekar gaman að sjá hvernig glaðnaði yfir eyjunni eftir því sem það leið á daginn og sjá skýjakljúfana birtast í suðri. Þannig að í dag ætlaði ég að vera að lesa, en ég hafði það bara svo ótrúlega kósí eitthvað þarna, við hliðina á græjunum, að hlusta á góða tónlist og virða fyrir mér borgina. Í hádeginu var líka lífleg umræða um hver munurinn væri á Kanadabúum og Bandaríkjamönnum. Kanadabúinn í hópnum varð frekar móðguð þegar Dave sagði að Kanada væri bara eins og enn eitt fylkið í BNA. Hún sagði okkur líka frá því að þegar hún ferðast, þá er mikill munur á því hvernig útlendingar koma fram við hana þegar þeir halda að hún sé Bandaríkjamanneskja, eða þegar þeir fatta að hún sé frá Kanada. Fólk leyfir sér víst að vera dónalegt við Kanana blessaða... Og nú ætlum við að skella okkur niður í bæ spóka okkur. fimmtudagur, janúar 10, 2002
Fyrsti Rannsóknarstofudagurinn Ég var að koma af rannsóknarstofunni. Þetta var fyrsti dagurinn, og mér líst bara nokkuð vel á... Ég byrjaði á að sitja á labbfundi, þar sem urðu líflegar umræður og spekúleringar. -Eitthvað sem ég átti ekki að venjast á labbinu sem ég var á fyrir jól. Svo var ég kynnt fyrir öllum á labbinu. Ég er meira að segja með þartilgerðann "stuðningsfulltrúa", en einn póstdokkanna á labbinu á að hjálpa mér að starta verkefninu mínu og ég á að leita til hans ef ég er í einhverjum vandræðum eða hef einhverjar spurningar. Á morgun mæti ég svo og geri fyrstu tilraunina mína. Já, ég verð víst að horfast í augu við frekari músadráp, því ég þarf að einangra hvít blóðkorn úr músamilta. Svo þarf ég bara að meðhöndla frumurnar aðeins og bíða svo fram á þriðjudag, en þá held ég áfram og einangra RNA úr frumunum... (Vúps.. ég vona að minna vísindalega sinnaðir lesendur dagbókarinnar hafi ekki gersamlega dáið úr leiðindum núna.) Ég víl líka endilega hvetja þá sem hafa eitthvert vit á Real Time PCR að pósta góð ráð í kommentin hérna, eða bara senda mér þau í ímeili.. Nú er hins vegar maður að nafni Mörður Finnbogason að hvetja mig til þess að koma með sér niður í þvottahús, og svo ætla ég að fara í skólann að sækja einkunn nr.3 af 4. Óskið mér heilla... miðvikudagur, janúar 09, 2002
Ég var að bæta inn nokkrum myndum frá því á gamlárskvöld, en við vörðum því í frábærri veislu hjá foreldrum hans Marðar. Myndirnar er að sjá í myndaalbúminu okkar. Já, ég er bara ágætlega sátt við að vera komin aftur heim. Flugferðin var ekki sú skemmtilegasta sem ég hef upplifað. Við kúldruðumst á aftasta bekk, það var ekki hægt að halla sætinu mínu aftur. Ég var með fæturna upp í sætinu, að reyna að láta sem best um mig fara, þegar manneskjan fyrir framan mig tók kast á mig og sagði mér að fara niður með fæturna, þannig að hún gæti hallað bakinu aftur. Ég sagði henni á íslensku að það væri ekki hægt að halla mínu baki aftur og að ég væri alveg í klessu, en hún bara þóttist ekki skilja mig og talaði við mig ensku með íslenskum hreim. Og svo passaði hún sig á því að hafa bakið aftur alla leið, jafnvel þó að hún sæti alveg fremst á sínu sæti og hallaði sér fram á borðið. Flugfreyjurnar þurftu meira að segja að biðja hana um að rétta úr sætinu svo að ég gæti borðað matinn minn!! Það var svo þröngt, að Mörður gat ekki einu sinni haft lapptoppinn opinn til þess að spila Championship Manager! Úff, sem betur fer gekk röðin mjög hratt við "immigration" hliðið. Og við fengum leigubíl frekar fljótt. Það var snjókoma þegar við lentum í New York, og í gær var veðrið alveg yndislegt, hægur vindur, pínu kalt og sólskin.. alveg heiðskírt meira að segja. Ég er loksins komin á rétt tímaról, vaknaði fyrir klukkan sjö í gærmorgun og klukkan hálfátta í morgun, alveg vekjaraklukkulaust... jibbí, þetta finnst mér þægilegt. Þá kemur maður mikið meiru í verk yfir daginn! Ég held að ég sé endanlega búin að gefast upp á Flugleiðum. Næst þegar ég fer til Íslands, verður það eftir einhverjum krókaleiðum, til þess að þurfa ekki að skipta við þetta kompaní. Það er til dæmis eitt sem ég skil ekki. Það er að Flugleiðir hafi fengið einhver stundvísiverðlaun. Í meirihluta þeirra skipta sem ég hef flogið með þeim hafa orðið seinkanir. Varla er ég bara svona rosalega óheppin. Ef ég kem heim í sumar fer ég fyrst til Dusseldorf, þaðan til Egilstaða og svo með rútu til Reykjavíkur, frekar en að skipta aftur við Flugleiðir. Og hana nú!!!!! Annars sit ég bara og les fræðin sem eru undirstaðan fyrir rannsóknina sem ég á að vinna við á þessu misseri. Það er frekar næs að sitja bara heima og lesa. Á morgun byrja ég svo að vinna og skólinn byrjar svo 22. janúar. mánudagur, janúar 07, 2002
sunnudagur, janúar 06, 2002
laugardagur, janúar 05, 2002
fimmtudagur, janúar 03, 2002
Nema hvað.. eina ferðina enn get ég ekki sofnað. Það var mikil huggun fyrir mig að kveikja á lappanum og sjá að klukkan er þó ekki meira en hálfníu í New York. Reyndar hálftvö á þessu myrka landi ísa, en hvað um það. Dagurinn fór í enn frekari heimsóknir, þetta er ansi ljúft. Við fengum gulrótaköku í morgunmat og ostaköku hjá Þóru með síðdegiskaffinu, og hún mamma snaraði fram marengstertum og smákökum með kvöldkaffinu, að ógleymdri sveppasúpu og laxbrauði sem á undan fylgdu. Já, málbeinið hefur líka aldeilis fengið góða þjálfun. Við skoðuðum nýju íbúðina hennar Þóru, sem er mjög sæt og mjög svo kósí. Hún Þóra á líka ekkert smá flottan samóvar sem hún keypti í sjálfu Rússlandi. Það eru nefnilega fáar konur jafnvíðförlar og hún Þóra. Hann Rögnvaldur hennar Þóru er nú líka ansi víðförull og hefur meðal annars stúderað á ýmsum stöðum á Indlandi. Tjáh.. þeir eru ekki á hverju strái stærðfræðingar sem hafa stundað fræðin á jafnfjarlægum slóðum. Gísli bróðir er orðinn Jafnaðarmaður. Að minnsta kosti gengur hann í bol sem á er letrað "Ungir Jafnaðarmenn í Hafnarfirði" eða eitthvað viðlíka. Tjáhh.. það er nú barassta fínt, betra ef úr honum yrði einhver auðvaldspúki. Lífið er greinilega að komast í gírinn hér á landi eftir jólin, allir þreyttir eftir skammdegisvinnudag, Guðný að byrja í skólanum aftur, og mamma líka (og Hrafnkell náttúrulega líka, nema það er kannski aðeins annars eðlis...). Kannski ég fari bara að drífa mig í skólann sjálf!!! miðvikudagur, janúar 02, 2002
Vúps.. Það var að renna upp fyrir mér ljós... það eru bara fjórir dagar eftir af jólafríinu okkar!!!!!!!!!!!!!!! Vá, mér tókst að vakna klukkan hálfellefu í morgunn... Nýt jólafrísmet. Á morgun stefni ég jafnvel á að vakna enn fyrr. Sjáum nú samt hvurnin það gengur. Í útréttaði ég á mettíma og eyddi svo síðdeginu heima hjá þeim Stínu og Jóni og ræddi við þau öll heimsins mál. Og heilsaði náttúrulega upp á skæruliðana tvo sem minnka nú ekki beint þessa dagana. Við hjónin skelltum okkur svo niður í bæ í kvöld og skvettum í okkur bjór á Kaupfélaginu og síðan á Kaffibrennslunni. Ég kann nú alltaf best við mig á Brennslunni, ég verð nú bara að segja það. |
|