<
Dagbók Ernu og Mödda
Blogg:
Soffía
Stína
Herdís
Bumbublogg


Hlekkir:
Drudge Report
Sálufélaginn
Liverpool
The Onion
Félagið Ísland-Palestína
Columbia
Columbia Bio

Nýtt blogg -->









Gamlir dagar:






Powered by Blogger
Kíkið á nýju heimasíðuna og nýja bloggið okkar! www.ernaogmoddi.com www.ernaogmoddi.com/blogg



sunnudagur, mars 31, 2002
Sonic
 
Búin með enn eitt heimaprófið. Í þetta sinn um heilaþroskun hænsna.. jeijj.. hljómar það ekki spennandi? Það er eitt sem mér finnst samt pínu fyndið, af því að ég er líffræðinörd. Gen í bananaflugum (Drosophila melanogaster) heita öll alveg mjög lýsandi og rómantískum nöfnum eins og wingless, son of sevenless, bride of sevenless og svo mætti lengi telja. Hins vegar er ekki það sama að segja um froska (Xenopus laevis), genanöfnin þar eru frekar "boring". Einn daginn þegar froskafræðingar fundu gen í froski sem er líkt geninu Hedgehog i ávaxtaflugum, ákváðu þeir að kalla það Sonic Hedgehog eftir tölvuleiknum, svona aðeins til þess að minnka nafnaöfundina. Þetta gen er líka í kjúklingum, þannig að ég er búin að verja þessum skemmtilega páskadegi í að skrifa um Sonic Hedgehog... ...og já: Ég er nörd.

Íslenskir stafir!
 
Hann Sindri er alger snillingur, hann bjó til svona forrit þar sem maður getur notað íslenska fingrasetningu í tölvu sem styður ekki íslenska stafi, þannig að það kemur allt út á okkar kjarnyrta móðurmáli með tilheyrandi rúnaletri!

laugardagur, mars 30, 2002
Saumó
 
Ég hitti hana Ásu Bjarna í gær, en hún er einmitt á ferð hér í borg þessa dagana. Ég hitti hana á hótelinu hennar á Lexington Avenue, en þar sátu foreldrar hennar á barnum og slöppuðu af eftir daginn. Þau buðu okkur upp á drykk, og við fengum okkur auðvitað Cosmo. Við vorum á leiðinni út að borða, en það var svo gaman hjá okkur á barnum að við lögðum ekki af stað niður í bæ fyrr en klukkan hálftólf. Við fórum niður í Greenwich Village og fundum lítinn sætan mexíkanskan stað. Þar fengum við alveg hreint ljúffengan kjúlla í súkkulaðisósu. Namminamm.
Það var svaka gaman hjá okkur og kjaftaði á okkur hver tuska. Okkur fannst þetta samt frekar slæm mæting í saumó, kannski af því að við klikkuðum illa á því að boða í hann. Þetta var sumsagt fámennasti saumaklúbbur 6.M hingað til...

föstudagur, mars 29, 2002
 
Hvað er þetta eiginlega? Það mega ekki koma páskar og þá þarf að draga hálfa íslensku þjóðina upp úr jöklasprungum eða leita að þeim upp um fjöll og fyrnindi! Þetta er bara ein sönnun þess að það ætti að taka upp rötunarnám og vetrarferðanámskeið sem hluta af skyldunámsefni í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.

fimmtudagur, mars 28, 2002
Þýska með dönskum hreim og krypplingar
 
Oh... ég er ekkert smá fegin að vera búin með þennan fyrirlestur og þetta próf. Ég stóð mig ekki vel í fyrirlestrinum, ég tala ekki þetta taugalíffræðitungumál, þannig að ég var ekki alveg með hugtökin á hreinu. Darcy grillaði mig ekki, sennilega af því að hún var svo hrifin þegar hún fattaði að ég væri frá Íslandi og "talaði" þýsku. Ég gat nefnilega hjálpað þeim að bera fram orðið Hoechst, sem er nafn á efna- og lyfjafyrirtæki sem var upprunalega þýskt. Það sem þau vissu hins vegar ekki er að ég er með geðveikt danskan hreim á þýskunni minni, þannig að nú bera allir í bekknum mínum fram orðið Hoechst, på dansk!!!!
Ónæmisfræðiprófið var fínt. Ég er alveg sátt við það.

Til að verðlauna sjálfa mig fyrir dugnað dagsins, fór ég heim fyrir klukkan fimm og skellti hlaupaskónum á tærnar og fór í skokkferð út í Central Park. Í þetta sinn hljóp ég fram úr að minnsta kosti fjórum körlum með kryppu, sem nánast hlupu á staðnum í kringum vatnsbólið. Váá, þarna voru greinilega mættir félagar úr The Hunchback Society of Greater New York. Ég dáist samt að gömlum körlum með kryppu sem drífa sig út í góða veðrið að skokka.

miðvikudagur, mars 27, 2002
Þríeygðir froskar
 
Þá er það orðið nokkuð ljóst, ég verð grilluð á teini í taugalíffræði á morgun. Ég var meira að segja að fatta að það er skírdagur á morgun og ég þarf að taka próf og halda fyrirlestur. Ullabjakk. Ég varði hins vegar öllum deginum í að lesa ónæmisfræði. Taugalíffræðifyrirlestursundirbúingur fólst í því að ljósrita 3 glærur. Málið er bara það að ég kann ekkert í taugalíffræði, þar sem ég hef aldrei lært hana áður. Þannig að ef ég ætti að undirbúa mig í alvöru og halda góðan fyrirlestur, þá hefði ég þurft mjög langan tíma til undirbúnings. Á hinn bóginn kennir prófessorinn sem ég vinn hjá núna ónæmisfræðina, og ég hef áhuga á að vinna hjá henni í framtíðinni, þannig að þar verð ég að skora stig.

Það er líka barasta svo ógeðslegt að lesa um svona tauga-tilraunir. Ég er til dæmis á morgun að fara að kynna tilraun þar sem froskfóstur var tekið og þriðja augað grætt í það, og svo var þroskun heilans skoðuð eftir það. Ojbarrrrrasta.. myndin af froskinum var ekki falleg... þvöhhhkkkk

Próf og "fyrirlestur"
 
Ég þarf að vera heima að læra ónæmisfræði í allan dag. Reyndar er það alveg hreint stórfínt. Ég er komin með nýjustu útgáfuna af Janeway og er hún bara alveg hreint ágætislesning. Ég er nefnilega að fara í svona miðsvetrarpróf í ónæmisfræði á morgun. Reyndar á ég líka að halda smá kynningu í taugalíffræði. Ég kann ekkert í taugalíffræði, þannig að þetta kemur sér ekki vel, en ég held ég nenni ekkert að undirbúa þennan fyrirlestur ég vil frekar standa mig vel í ónæmisfræðinni. Darcy Kelley er samt reyndar svolítið grimm við þá sem eru ekki með allt á hreinu í kynningunum sínum, þannig að hún á eflaust eftir að grilla mig á morgun!

mánudagur, mars 25, 2002
Gaseldavélar eru stórhættulegar
 
Ég komst að því í dag. Ég var í tíma í taugalíffræði þegar Darcy Kelley sagði okkur frá því að einhver fræg taugalíffræðikona hefði misst af Nóbelsverðlaunum af því að hún dó þegar gaseldavélin hennar sprakk í tætlur. Þegar Ana fór að hlægja af því að henni fannst þetta kaldhæðnisleg örlög vísindamanns sem vinnur með Bunsen brennara og þessháttar hluti daglega, sagði Darcy stundarhátt: "Don't laugh at that, I have had a stove explode and it is not funny!"
Mér varð ekki um sel. Eru eldavélasprengingar kannski hversdagslegur hlutur hérna í Ameríkunni?

Ég er ein heima...
 
Ég þarf að venjast þessu, að kallinn sé í vinnunni.
Helgin var frábær, en fyrst það var afmælið hans Marðar, þá ætlar hann að blogga um afmælisdaginn sinn...

föstudagur, mars 22, 2002
Train, tog, lest, mörður
 
Úff, nú er Mörður á leiðinni heim í lestinni. Hann hringdi fyrir einum og hálfum tíma síðan og sagðist ætla að taka lest sem færi eftir hálftíma. Ég var auðvitað ekkert smá ánægð og hlakkaði til þess að sjá elskuna mína fljótlega, en mundi svo að ef hann næði næstu lest, þá yrði hann kominn heim eftir tvo klukkutíma. Og mér sem finnst leiðinlegt í subway í þessar 10 mínútur hvora leið!
Þegar ég var á Indlandi sagði mér einhver að orðið lest á hindi væri mörður. Þetta eru kannski bara örlögin að taka í taumana!


Matarboð, namm
 
Jæja... ég ætti kannski að fara að skríða í vinnuna. Við fórum svo seint að sofa að ég gersamlega var ekki að meika það að fara að æfa í morgun.

Við fórum nefnilega í matarboð til Sollu og Svans í gær, en þau búa á "uptown" kampusnum, því Solla er að vinna doktorsverkefni þar. Það var ekkert smá næs, við fengum rosalega góðan mat og hlustuðum á íslenska tónlist og spjölluðum frameftir kvöldi. Við þáðum mörg góð ráð frá þeim um lífið í New York, því þau hafa búið hér í fimm ár og hafa af mikilli reynslu að miðla.

Ég þarf hins vegar að vera dugleg að vinna í dag, þannig að ég komist niður í bæ í kvöld. Ég þarf að redda svolitlu fyrir morgundaginn.

fimmtudagur, mars 21, 2002
Pæja
 
Ég er ekkert smá sæt núna, enda er mín barasta búin að fara í klippingu. Það veitti sko ekki af. Málið er að ég fór niður á Morningside Campusinn til þess að sækja námsefni í taugalíffræði, og droppaði bara við á hárgreiðslustofunni á 118 stræti og bað um eitt stykki stutta klippingu, svona fyrst ég var hérna niðrifrá um hábjartan dag. Martha sem klippti mig sagði ekki margt, en klippti mig styttra en ég hef nokkurn tíman verið klippt. Ég er þokkalega að fíla það.
Ég sakna samt stemmingarinnar af Space, sérstaklega Laufeyjar, það er svo gaman að spjalla við hana þegar hún klippir mig. Og þó að klippingin sé fín í þetta skiptið, þá er hún ekkert eins góð og heima. Málið er að það eru næstumþví engar amerískar konur með stutt hár, þannig að kanar bara kunna ekki að klippa konur stutt.


miðvikudagur, mars 20, 2002
Myndó
 
Það er ekkert smá fínt að vera í svona "springbreak". Ég þarf ekkert að mæta í tíma alla vikuna og get því verið mætt á labbið á morgnana, og í dag var ég búin klukkan hálfsex. Ég notaði náttúrulega tækifærið og dreif mig heim og skellti í fjórar þvottavélar. Þvotturinn er núna í þurrkaranum og á pönnunni mallar alveg hreint dýrðarinnar ommeletta. Jummí. Nú vona ég bara að kallinn skili sér heim til þess að njóta góðgætisins með mér.....

þriðjudagur, mars 19, 2002
Grafarþögn og kakkalakkahræðsla
 
Ég er búin að vera fremur framlág í dag. Ég settist nefnilega niður klukkan tíu í gærkvöldi með bókina Grafarþögn, eftir Arnald Indriðason. Mér rétt tókst að skríða inn í rúm á miðnætti, og hafði ekki legið þar lengur en í tíu mínútur, með dúndrandi hjartslátt, þegar ég bara varð að læðast fram aftur og halda áfram að lesa. Ég er ánægð með Arnald, honum tekst vel að skrifa í svona dæmigerðum reyfarastíl, og það á íslensku, en það geta það nú ekki allir. Bókin var spennandi frá fyrsta augnabliki og stemmningin drungaleg. Ég hjúfraði mig saman í sófanum í hálfrökkrinu, og las og las og hlustaði á hljóðin í húsinu sem við búum í. Það ríkti nú ekki alveg grafarþögn, ég var alltaf að heyra einhver þrusk og hljóð sem ég kannaðist ekkert við. Ég var eiginlega alveg skíthrædd. Í fyrsta lagi út af stemmningunni sem stafaði út frá bókinni en ekki síst vegna þess að þegar ég er ein og óvernduð á kreiki á nöttunni í íbúðinni grípur mig alveg ofboðsleg kakkalakkahræðsla. Ég er ekki enn búin að jafna mig á þessum flykkjum sem skriðu um íbúðina okkar í haust og geri það sennilega seint, sérstaklega þegar ég komst að því að þeir flygju, þeir hafa þó ekki látið á sér kræla síðan í haust, nema í höfðinu á mér.
Ég kláraði bókina klukkan fjögur, og smeygði mér í inniskóna mína, það er nefnilega alveg sérstaklega mikilvægt að vera ekki berfætt í myrkrinu, því maður veit aldrei hvenær maður gæti stigið á kakkalakka, og þá er ekki gaman að vera skólaus.

mánudagur, mars 18, 2002
Helgin
 
Helgin var fín, stórfín. Við fórum í bæinn að kaupa föt á Mörð kallinn á laugardaginn, hann átti eiginlega ekki orðið fataspjör á búkinn á sér. Hann er nefnilega orðinn svo mjór að gömlu fötin hans hanga utaná honum eins og lufsur. Hann virkar greinilega atvinnuleysismegrunarkúrinn, sérstaklega ef fólk drekkur mikið af amerísku kaffi og tekur í skvasspaða við og við.

Við komumst ekki hjá því að uppgötva að það var "Heilags Patreks messa" á laugardaginn, þar sem við gengum fram á skrúðgöngu á Fimmtu breiðgötu. Það var mikið um dýrðir í kringum þessa göngu og mikið um Íra vel við skál. Gangan varði líka allan daginn, og skipulagið í kringum hana var aðdáunarvert, þannig að þeir sem vildu komast leiðar sinnar í verslanir gátu gengið um óáreittir og fólk sem vildi horfa á skrúðgönguna fékk að njóta hennar, einnig óáreitt.

Um kvöldið fórum við svo í mat til Eyrúnar og Péturs, og þar voru líka Olivia og Björgvin. Við sátum þar við mikla gestrisni langt fram á nótt, en tókst þó, aldrei þessu vant að koma okkur heim fyrir dagrenningu. Fólki í kringum okkur finnst þessir skemmtanasiðir Íslendinga, að djamma alltaf framundir morgun, alveg stórfurðulegir og það er ekki laust við að Joss og félagar horfi á Mörð aðdáunaraugum þegar hann segir að hann hafi komið mjög snemma heim -um morguninn! En Joss spurði þó í gær: "Did you go to that Icelandic club again?" Þegar hann bankaði upp á og sá ástandið á okkur hjónunum.

Núna er hins vegar kominn mánudagur og við aftur við hestaheilsu, og ég er að elda dýrindis kjúlla handa manninum mínum, svona fyrst hann er búinn að vera að bera björg í bú í allan dag.

föstudagur, mars 15, 2002
Bloggfíkn
 
Já... ég verð að viðurkenna það... ég er algerlega húkkt á því að lesa blogg þessa dagana. Ég veit ekki alveg af hverju, þetta er bara alveg sjúklega vanabindandi. Það er líka fínt svona á daginn þegar ég er að bíða annað slagið í þessar klassísku 20-40 mínútur eftir tilraununum mínum að taka sig (æj.. þið vitið.. bíða eftir gelkeyrslum og skilvindum og meltum og öllu þessu dóti), að bara dýfa sér í hyldýpi íslenskra blogga og tékka á hvað fólk er að hugsa á skerinu og annarstaðar í heiminum. Ýmislegt sem maður fréttir, svona eins og að Sigurjón Kjartans sé kominn með nýjan útvarpsþátt og að kuldinn sé búinn að vera alveg gífurlegur..... Ég veit ekki alveg hvað eru mín uppáhalds blogg... ég les alveg slatta af þessu, en ég hugsa að Kristján og Stella séu mjög ofarlega á listanum svo eru það Potturinn, Björgvin... og svo er alltaf gaman að kíkja á lífefnafræðinemann hana Brynju og fá smá nostalgíukast og þannig gæti ég endalaust haldið áfram.. það eru óendanlega mörg blogg þarna úti á blessaða internetinu.

Þetta er samt á mörkunum að vera fíkn hjá mér, þar sem ég er of dugleg að skoða blogg á kvöldin þegar ég ætti að vera að læra. #@*##

Ég stefni á það að setja RSS lista hér inn á síðuna af molum, en ég nenni því ekki fyrr en ég er algerlega viss um hvaða blogg ég vil pottþétt linka hingað.

Hey, kúl.. Árdís var akkúrat að uppfæra.. og haldið þið ekki að hún hafi verið á fyrirlestri hjá Stephen Hawking!

fimmtudagur, mars 14, 2002
God bless America... land of the free...
 
Ég fór í dag til þess að kjósa um aðild að verkalýðsfélagi. Ætli þetta hafi ekki verið mín fyrsta og síðasta reynsla af bandarískum kosningum, og hún var ekki góð.

Þegar ég kom á kjörstað var mér tjáð að nafn mitt væri ekki á lista yfir kjörgenga einstaklinga og því fór fyrir mér eins og Sollu að atkvæðið mitt var vefengt. Þannig að ég mátti greiða atkvæði, en þegar ég kom til baka úr kjörklefanum var atkvæðið mitt sett í umslag merktu nafninu mínu. Ég hef aldrei vitað annað eins. Ég held að það þurfi að kenna þessum Könum sitt hvað þegar kemur að kosningamálum. Reyndar var þetta þartilgert umslag þar sem hægt var að rífa nafnið mitt af. En mér er alveg sama. Atkvæðaseðillinn er persónugreinanlegur þangað til einhver rífur af honum nafnið mitt þannig að mér finnst þetta ekki alveg standast þær hugmyndir sem maður hefur af nafnlausum kosningum.

Og svo verður ákveðið einhvern tíman seinna, eftir talninguna á öllum hinum atkvæðunum, hvort að þessi vefengdu atkvæði verði talin með. Lýðræðismeðvitund minni er stórlega misboðið.

miðvikudagur, mars 13, 2002
Kosningaumræður á íslensku
 
Þegar ég sat við tölvuskjáinn á rannsóknarstofunni í dag að vinna við prímeragerð, heyri ég allt í einu sagt fyrir aftan mig; "Ert þú Erna?" .... á íslensku... jamm, sko ekkert Örna.. heldur Erna, borið fram eins og það sé djé á undan enninu. Það kom svo á mig að ég snéri mér við og horfði í augun á konunni sem þetta sagði og svaraði: "Yes, that's me..." vúps.. rangt tungumál. Þarna stóð fyrir framan mig kona sem kynnti sig sem Sollu, og þá kveikti ég á perunni. Solla er nefnilega vinkona hennar Steinu sem ég vann með inni í Erfðagreiningu.

Málið var að það eru kosningar í dag og næstu daga í skólanum um það hvort að nemendur í framhaldsnámi eigi að ganga í verkalýðsfélag. Skólayfirvöld eru ekki mjög hrifin af þeirri hugmynd og því hefur rignt yfir okkur pósti og tölvupósti undanfarið, um það hversu óæskilegt það væri fyrir hið akademíska umhverfi að við gengjum í verkalýðsfélag. Flestir stúdentar í lífvísindum eru á móti aðild, aðallega vegna þess að við fáum mikið hærri styrk heldur en flestir þeir sem eru í hugvísindum og við höfum mikið minni kennsluskyldu. Fólki finnst því að við munum ekki græða neitt á aðild, heldur aðeins neyðast til þess að punga út fyrir félagsgjöldum mánaðarlega.
Hún Solla sér hlutina í aðeins öðru ljósi, og er fylgjandi aðild. Í morgun gekk hún að kjörstað og ætlaði að kjósa og komst þá að því að deildin hennar hafði látið ógilda atkvæðarétt hennar, seðillinn hennar var settur í sér-kassa, með atkvæðum sem verða "kannski" talin!!! Þvílík hneysa og móðgun við lýðræðið.

Hún lét þó ekki hendur fallast í skaut, heldur hóf að ganga um skólann, eins og sannri íslenskri valkyrju sæmir, og reka áróður fyrir aðild að verkalýðsfélaginu, og ég varð einmitt á vegi hennar.

Það var ansi gaman að spjalla við hana um þetta, því hún er búin að vera nemandi hér í 5 ár og rekist á ýmsa hluti sem henni finnst megi bæta í réttindamálum stúdenta. Það var líka bara svo gott að geta rætt um þetta á sínu eigin tungumáli og hljómað eins og manneskja, ekki eins og lítill krakki sem ekki kann að koma fyrir sig orði.

Þegar Solla kvaddi horfðu allir á mig furðu lostnir svo sagði Dave: "Is there another Icelandic person on this campus?" Og svo kom "Does it sound more convincing in Icelandic?"


mánudagur, mars 11, 2002
Stofnfrumurannsóknir og GWB
 
Ég verð eiginlega að treysta því að enginn tengdur innflytjendaeftirlitinu hérna í BNA kunni íslensku, og því aðeins að tjá mig opinberlega um forseta Bandaríkjanna og hans skoðanir. Ég er eiginlega búin að komast að þeirri niðurstöðu í hugleiðingum mínum um hann, að hann sé ekkert skárri eða á nokkurn hátt öðruvísi í þankagangi en öfgasinnaður múslimi. Hann tilheyrir bara öðrum trúarbrögðum. Maðurinn er á móti fóstureyðingum, hann er á móti kynlífi fyrir giftingu, og þess vegna má ekki tala opinberlega um kynlíf unglinga og í því samhengi getnaðarvarnir og varnir gegn kynsjúkdómum. Fyrir honum er það ekki nauðsynlegt, því fólk á ekki að sofa hjá fyrr en í fyrsta lagi á brúðkaupsnóttina. Og svo er hann á móti rannsóknum á stofnfrumum manna.

Andúð hans á stofnfrumurannsóknum á sér trúarlegar rætur, því að hann telur að sérhver stofnfruma hafi, eðlis síns vegna, innbyggðan möguleika á að verða að manneskju. En samt er hann ekki á móti rannsóknum á þeim 60 stofnfrumulínum sem eru nú þegar til á opinberum stofnunum (les: opinberar stofnanir hafa milljarðatekjur af þeim), en hann vill að það verði bannað að stofna fleiri stofnfrumulínur. Þannig að hann er eiginlega að segja að það sé stundum ljótt að rannsaka stofnfrumur, en ef þær eru til fyrir, og eru verðmætar, þá megi horfa framhjá því. Hvurslags þankagangur er það?

Okkur var líka bent á athyglisverðan punkt í dag í siðfræði, og urðu nokkrar umræður í kjölfarið: Sérhver stofnfruma hefur möguleika á að verða að fullvaxinni manneskju, en þó aðeins ef að til er kona sem vill bera fóstrið í legi sínu, fullan meðgöngutíma. Þannig að með rökum sínum er forsetinn að segja að siðferðisvitund og vilji kvenna komi málinu ekki við, hann gerir ráð fyrir því að fyrir sérhverja stofnfrumu sé ávallt til staðar kona sem vilji veita henni legskjól sitt. Þessi þankagangur er sprottinn af sama meiði og andstaða hans við fóstureyðingar. Í báðum tilvikum tekur hann ekki inn í myndina þarfir og vilja kvenna og virðir þær þar með sem einstaklinga sem ekki geta borið ábyrgð á gerðum sínum.

sunnudagur, mars 10, 2002
9.11
 
Það er þáttur í sjónvarpinu núna um "nine-eleven". Á morgun er hálft ár liðið frá árásinni. Það voru einhverjir gaurar sem voru að gera heimildarmynd um slökkviliðsmenn í New York og enduðu á því að gera mynd um árásina. Það er frekar erfitt að horfa á þennan þátt. Mér líður aftur eins og mér leið þennan dag. Það er ekki hægt að lýsa því, en það er ekki skemmtileg tilfinning. Ég er búin að reyna að "gleyma"þessum atburðum, ég þvertek fyrir að fara niður á ground zero. Mig langar ekki að vita af þessum stað í borginni sem ég bý í. En einhvern vegin er mér að verða ljóst að sama hvað ég reyni þá á þessi tilfinning eftir að fylgja mér á meðan ég bý hér, það er ekki hægt að gleyma þessum degi.

Dorso-ventral pattening in Drosophila melanogaster
 
Loksins skreið ég á fætur, en nú er Cesaria komin á fóninn, kaffið í bollann og ég einbeiti mér að heimaprófi sem snýst um myndun bak-kviðlægs mynstur í fósturþroska bananaflugna.

Ég á að lesa tvær greinar sem komu út sama daginn, í sitt hvoru vísindatímaritinu, og eru ekki samhljóða hvað varðar ferlið sem skapar áðurnefnt mynstur. Ég á að taka saman helstu rök beggja, leggja mat á niðurstöðurnar og hanna tilraun sem sker úr um hvor tilgátan sé rétt.

Ég er enn að lesa greinarnar. Ég hef aldrei lært þroskunarfræði áður, þannig að ég þarf að hafa svolítið fyrir því að skilja þetta allt saman. Sem betur fer finnast mér þessi fræði skemmtileg og það er ákveðin áskorun að leysa verkefni af þessu tagi. Á hinn bóginn er 17 stiga hiti úti og mig langar til þess að skella mér í klukkutíma skokk í Central Park.

Ef ég er sniðug og fæ góða hugmynd að tilraun fljótlega, ætti ég þó að komast í smá skokk, áður en ég fer á rannsóknarstofuna.

Bravenet..
 
Bravenetið er komið upp aftur, og því eru könnunin, teljarinn og myndaalbúmið aftur komin í góðan gír...

laugardagur, mars 09, 2002
Leiðsögukellingar díkód... farið nú að standa ykkur!!!!!!!!
 
Ég væri alveg til í að vita hvaða "leiðsögukelling" þetta var. Ég les annað slagið bloggið hennar Brynju og fæ oft nostalgíukast við það og man eftir gömlu góðu dögunum í lífefnafræðinni... Skil það vel að hún hafi verið sár yfir kynningunni, ég hefði sko örugglega sagt þeim frá öllum flottu tækjunum...

 
Stella og Kristján voru að gera snilldar-kaffipróf!

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Espresso!
30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?



fimmtudagur, mars 07, 2002
Hleypingar kenndar við um-
 
Ég hélt að ég sem Íslendingur ætti nú ekki að kalla allt ömmu mína hvað veðursveiflur varðar. Ég er búin að komast að því að það er ekki rétt. Það var ókei veður hér á laugardaginn, það rigndi alla aðfararnótt sunnudags og þegar við skriðum heim í morgunsárið þá var orðið mjög hlýtt, örugglega 10 stiga hiti og birtan var mjög furðuleg úti... alveg rosalega speisuð.. það var eins og einhver hefði skvett bláum vatnslitum yfir borgina. Það var líka svo rakt að maður gat næstum því drukkið loftið. Á sunnudagin var svo 15-17 stiga hiti og 95% loftraki. Á mánudaginn var komið allt annað hljóð í skrokkinn, fimm stiga frost og rok.. ískallt. Í dag er svo hins vegar sumarveður, fólk borðar úti á veitingastöðum og það er sumarlykt úti.

Þetta er alveg að fara með mig, ég mæti alltaf annan hvorn dag í dúnúlpu í skólann, grillast alveg gersamlega og mæti þar af leiðandi léttklædd daginn eftir og þá er auðvitað ískalt úti og ég dey úr kulda, mæti í dúnúlpu næsta dag og þá er hlýtt og ég bráðna úr hita.

Já, ég veit þetta er óskaplegt lúxusvandamál.... enda er ég eiginlega bara ánægð með þetta, það er ekki oft sem ég hef upplifað svona mikinn hita í mars, og á ekki eftir að gera það næstu árin, ef veðrið hérna verður eitthvað líkara því sem það er vant að vera.

Ég er hins vegar að hugsa um að finna leið til þess að koma orðinu umhleypingar inn í enska tungu.

þriðjudagur, mars 05, 2002
 
Ó.. ég má til með að segja ykkur að ég skráði mig á póstlista hjá Félaginu Ísland-Palestína í gær... Ég hef reyndar ekki fengið neinn póst frá þeim enn, en eftir þessa stuttu dvöl mína hér í BNA og er ég orðin dauðþreytt á fréttaflutningi fjölmiðla hér.
Ég var á móti hernaði Ísraela fyrir og er alltaf að verða meira og meira á móti Ísrael (sem hernaðarríki, það ber ekki að taka þessu þannig að ég þoli ekki Ísraela sem persónur, taki það til sín sem eiga). Fréttirnar frá Ísrael og Palestínu eru líka svo hlutdrægar hérna. Maður heyrir ekkert af voðaverkum Ísraelsmanna, en endalaust af sjálfsmorðárásum Palestínumanna. Ég er þó ekki fylgjandi sjálfsmorðsárásum, en mér finnst Ariel Sharon heldur ekki sniðugur karl.
Svo er ég líka í skóla þar sem gyðingar eru mjög áberandi, og það er endalaus Ísraelsáróður í gangi á "campusnum" hérna. Þannig að mér finnst ég verða að fá smá mótvægi við þessum áróðri sem ég verð fyrir hér. Það skemmir heldur ekki fyrir að hann Eldar Ástþórsson stendur fyrir þessum póstlista, en hann er einmitt "næstumþví-frændi minn".

 
Ég hef ekki mikið að segja þessa dagana. Ég er eiginlega bara að drukkna í vinnu. Og þess vegna hangi ég einmitt núna á netinu og slóra og slóra. Ég nenni nefnilega ekki að lesa um þroskunarferli bananaflugna og erfðagreiningar á þeim. Huh.. Kannski líka af því að ég er svo þreytt. Dagurinn var mjög stífur.

Ég byrjaði á því að sofa illa og reif mig svo upp um hálfátta og rauk út í gymmið og hljóp í 45 mínútur. Svo var þroskunarfræðitími klukkan tíu og aldrei þessu vant var tími í hádeginu. Það var umræðutími í siðfræði, en í þetta sinn var umræðuefnið dýrarannsóknir og meðferð tilraunadýra. Það kom mér á óvart hvað ég vissi lítið um reglurnar um dýrarannsóknir. en þær eru mjög strangar og það eru alls konar nefndir sem þurfa að samþykkja allar dýratilraunir. Það er líka regla hér, að maður verður að drepa mýs með því að kæfa þær með koltvísýrlingi, það tekur minnstan tíma og veldur minnstu kvölunum. Ef maður ætlar að nota heilann úr músunum, getur maður ekki notað þá aðferð, því það skemmir heilann. Þá er best að ofkæla mýsnar í ís áður en maður tekur þær af lífi... Mér hefur alltaf fundist þetta frekar ógeðfellt, og venst því seint að framkvæma þessa hluti, en ég er þó að minnsta kosti ánægð að það sé nokkuð staðfest að þetta séu kvalarminnstu deyðingaraðferðirnar.

Eftir siðfræði fór ég í ónæmisfræði. Ónæmisfræðikennarinn minn þessar vikurnar er algert krútt. Hann er 78 ára prófessor emeritus og hefur bara svo gaman að því að kenna, að hann kennir enn tvær vikur á ári. Hann er Ítali og talar með svo flottum ítölskum hreim, og svo segir hann svo skemmtilega frá, alveg eins og hann sé að segja okkur ævintýri eða eitthvað. Hann minnir mig eiginlega bara mest á Jón Gúmm sem kenndi mér íslensku í þriðja bekk í Menntaskólanum. Kannski líka af því að Pernis er svo skýrmæltur, alveg eins og hann Jón. (Ég ætla að vona að það séu ekki of margar stafsetningavillur hérna hjá mér, svona fyrst að ég er að minnast á hann Jón karlinn.)

Eftir alla þessa tímasókn var kominn tími til þess að taka til höndunum á labbinu, en eftir þriggja tíma vinnu gafst ég hreinlega bara upp og fór heim. Það var alveg ótrúlega fínt að vera komin heim strax um hálfsjö. Ég hafði meira að segja tíma til þess að fara með Merði út í búð að kaupa í matinn og hjálpa honum við eldamennskuna, en það gerist ekki oft.

sunnudagur, mars 03, 2002
Brjálað djamm
 
Það var alveg ágætis stuð á Þorrablótinu í gær. Fullt af skemmtilegu fólki og ágætis matur, að minnsta kosti nóg af kæstum hákarli, en hljómsveitin var frekar slöpp. Eftir að við höfðum blótað Þorra frameftri kvöldi fórum við ásamt hópi af fólki á bar niður í bæ sem heitir Naked Lunch. Það var alveg hreint ausandi rigning úti og auðvitað var röð fyrir utan staðinn. Við hímdum í röðinni í smá stund og urðum náttúrulega rennblaut og ógeðsleg. Þegar röðin var að koma að okkur var spurt: "how many girls, how many guys?", dyraverðirnir voru með skipanir um að hleypa helst bara stelpum inn. Við héldum að það yrði eitthvað vesen og tókum að tvístíga, þegar dyravörðurinn heyrði okkur tala saman og sagði "Eruð þið frá Íslandi" á frekar bjagaðri íslensku. Við misstum náttúrulega kjálkana í götuna af undrun og gaurinn spurði okkur hvaðan við værum á Íslandi, og svo úr hvaða bæjarhluta Reykjavíkur. Hann upplýsti okkur svo að því að uppáhalds barinn hans í Reykjavík væri Gaukur á stöng og að vinur hans, körfuboltamaðurinn Teitur Örlygsson byggi á Hagamelnum....athyglisvert, en gaurinn var körfuboltaþjálfari Hauka fyrir einhverjum árum síðan!!!! Þetta kom sér ansi vel, því við flugum inn á staðinn og nær allir þeir Íslendingar sem komu á barinn eftir þetta fengu að fara fram fyrir röðina og beint inn. Segið svo að það borgi sig ekki að vera frá Íslandi.

Við tókum púlsinn á Naked Lunch og dönsuðum við diskó og "eighties" tónlist, og um þrjúleitið skelltum við okkur á rólegri stað hinum megin við götuna og svo eftir það var haldið í eftirápartí heima hjá Isaac og Stínu, en þau búa einmitt hér í New York, hún er fiðluleikari og hann smíðar fiðluboga. Ég hef aldrei áður kynnst neinum sem hefur það að atvinnu að smíða fiðluboga.

Eins og af lýsingunni má dæma, komum við seint heim, eða það mætti kannski orða það snemma, því klukkan var sjö á sunnudagsmorgni og heilsan er eftir því í dag.

laugardagur, mars 02, 2002
Ég er búin!
 
Jeijjjj!!!!!!!! Ég er búin með prófið! Jibbí, jibbí, jibbí. Ég get ekki sagt annað en að ég hafi verið í fínu formi í morgun. Ég vaknaði fersk og hress klukkan átta að vanda og eftir einn kaffibolla streymdu hugmyndir um tilgátur og tilraunir fram í huga mér. Ég gersamlega massaði prófið fyrir hádegi, og er langt á undan áætlun, því ég var búin að gefa mér tíma fram til klukkan fjögur til að klára uppkast að prófinu, og svo ætlaði ég bara að fínpússa orðalag og svona annað kvöld. En haldið þið ekki að ég sé bara búin. Og þrátt fyrir allt kvart og kvein, þá er búið að vera frekar gaman hjá mér í morgun í öllu þessu hugmyndaflæði. Ég held að ég ætti bara að gerast svona sófa-vísindamaður og bara sitja einhvers staðar og lesa og búa til tilgátur og pæla í þessu öllu. Það er miklu einfaldara en allt þetta tilraunasull!

Og nú er stefnan tekin á kæstan hákrarl brennivín og harðfisk í kvöld. Og brjálað stuð.. það verður íslensk hljómsveit á staðnum, ég hlakka til að sjá hverjir það verða.

föstudagur, mars 01, 2002
Skipulagður frumudauði (apoptósa)
 
Jeijjj.. ég er um það bil hálfnuð með heimaprófið mitt. Nú stefnir allt í að ég komist á þorrablót Íslendingafélagsins á morgun, það er að segja ef einhverjar af heilafrumunum í hausnum á mér ná að lifa þetta verkefni af, þær eru í óðaönn að fremja svokallaðan skipulagðan frumudauða, af leiðindum og engu örðru. Frumustoðgrindin ojbarasta!




Myndirnar Okkar



Sendið okkur línu


Við erum að fíla:
Heimur hlauparans
Theodore Roosevelt
Dilwale Dulhania le Jayenge
Sigur-Rós
Cesaria Evora
Joe Locke