<
Dagbók Ernu og Mödda
Blogg:
Soffía
Stína
Herdís
Bumbublogg


Hlekkir:
Drudge Report
Sálufélaginn
Liverpool
The Onion
Félagið Ísland-Palestína
Columbia
Columbia Bio

Nýtt blogg -->









Gamlir dagar:






Powered by Blogger
Kíkið á nýju heimasíðuna og nýja bloggið okkar! www.ernaogmoddi.com www.ernaogmoddi.com/blogg



þriðjudagur, apríl 30, 2002
Mörgæsir
 
Ég er viss um að Herdís vinkona myndi fíla að vinna að þessu verkefni....

MP3 spilari
 
Við vorum að fá mp3 spilarann sem við pöntuðum á fimmtudaginn. Ég frétti það á labbinu mínu að Intel væri að hætta með þessa græju, að hann væri á 100 dollara í stað 150 og væri þar að auki mjög góður. Því ákváðum við að slá til og fjárfesta í græjunni. Það var að vísu smá vandamál, því við vorum orðin fjárlítil og ákváðum að skella honum bara á íslenska kreditkortið, en heimasíðan hjá Intel mótmælti því af því að póstnúmerið okkar passaði ekki við númerið á kreditkortinu....

Það fylgja 4 frontar með spilaranum, þannig að maður getur skipt um útlit reglulega. Ha, ha... var þetta ekki skonsulegt, að byrja á að segja frá frontunum! Minnið er 64Mb (jafnmikið og vinnsluminnið á gömlu tölvunni okkar) og það tekur aðeins örskotsstund að hlaða niður á hann tónlist. Þetta verður ljúft, fyrir Mörð í lestinni og mig í útihlaupunum.

mánudagur, apríl 29, 2002
Karen
 
Ég var að heyra rómantískustu sögu í heimi af því hvernig hún Karen, sem var að verja doktorsritgerðina sína í dag, hitti manninn sinn. Þau voru bæð að ferðast á Nýja-Sjálandi og þau gengu á sama fjallið frá gagnstæðum hliðum og hittust á toppnum. Eru búin að vera saman í 13 ár síðan þá. Það sem hún ætlar að gera eftir doktorinn er að fara til Antarktíku að stunda rannsóknarkafanir... Hún er alger pæja.

 
Ég hélt að svona gerðist bara í Ameríkunni. Mjög sorglegt. Ég er nú samt viss um að móðirin fær mannúðlegri dómsmeðferð en Angela Yates fékk hér í BNA.

Lúði
 
Ég stalst til þess að fara heim eftir tíma og baka brauð. Karen sem er á labbinu mínu er nefnilega að verja doktorsritgerðina sína í dag og allir eiga að koma með eitthvað gúmmelaði fyrir veisluna sem verður seinnipartinn. Á meðan deigið hefast ætla ég að bæta fyrir syndir gærdagsins og ryksuga íbúðina eftir partýið á laugardaginn. Já, ég veit ég er lúði að vera ekki búin að því, en betra er seint en aldrei....

sunnudagur, apríl 28, 2002
Þrumuveður
 
Það er þrumuveður úti. Það passar eiginlega alveg við ástandið á okkur hjónunum. Mér finnst eitthvað svo ótrúlega kósí að sitja inni og hlusta á rigninguna bókstaflega sturtast niður og sjá blossana af eldingunum og heyra þrumurnar dynja.

Stelpudjamm.
 
Ég hélt stelpupartý í gærkvöld. Það mættu fimmtán íslenskar stelpur sem ég þekki hér úr borginni og við djömmuðum fram undir morgun.

Mér sýnist ætla að verða úr þessu einskonar "saumó" og Lára Sif ætlar að halda partý fyrir okkur fljótlega. Það er alltaf svo gaman að hitta íslenskar vinkonur annað slagið, og fá duglega útrás fyrir Íslendinginn í sér.

Heilsan er eftir því í dag. Ég ætlaði að vinna, en ég held hreinlega að ég eigi eftir að eyðileggja það sem ég er að gera ef ég fer á labbið í kvöld. Fullkomin afsökun til þess að vera heima og horfa á DVD.

Naktar konur
 
Ég var að skoða teljarann á síðunni okkar og fannst frekar fyndið að sjá að dagbókin kom upp þegar einhver sló inn leitarorðin naked girls á Google.


miðvikudagur, apríl 24, 2002
 
Allt sem þú lest er lygi?

Rótasjón
 
Ég talaði við Carol Prives í dag um væntanlega "rótasjón" vinnu á labbinu hennar í sumar. Ég lagði mig alveg sérstaklega fram í kúrsinum hennar í haust, því mig langaði að vinna hjá henni. Það virðist hafa virkað, því ég bræddi hana víst alveg þarna í haust. Hún sagðist ekki hafa ætlað að taka neina nema á labbið í ár, en hún gerði undantekningu fyrst þetta var ég!!! Ég veit að þetta er mont af mér að vera að segja þetta svona á netinu, en ég er bara búin að vera svo glöð í allan dag og sjálfstraustið í botni. Ég held að það hafi líka hjálpað mér að vera Íslendingur, því Inga Reynisdóttir, sem ég vann aðeins fyrir hjá ÍE, gerði sitt doktorsverkefni á þessu labbi og Carol var svo ánægð með hana.

Þessi rannsóknarstofa sérhæfir sig í rannsóknum á frumuhringnum (cell cycle) og hefur undanfarin ár unnið mikið að því að rannsaka próteinið p53, en það hefur fundist stökkbreyting í p53 geninu í nær öllum gerðum krabbameins. Carol er svona gamall jálkur í faginu. Hún hefur birt, hvorki meira né minna en 132 vísindagreinar skv. PubMed. Ég verð nú samt að segja að hún er einn lélegasti kennari sem ég hef haft. Hún byrjaði til dæmis á því að kenna okkur hluti sem ég lærði í MR.

Ég hlakka bara til sumarsins. Kúrsarnir eru alveg að klárast, og þá verður bara labbvinna í sumar. Carol Prives er líka á "downtown" campusnum, þannig að ég er bara í 7 mínútur á leiðinni þangað að heiman... og svo er hún í næsta húsi við gymmið... ljúft...

mánudagur, apríl 22, 2002
Gleði og hamingja
 
Ég gerði lykiluppgötvun um helgina. Í leit minni að almennilegri jógúrt (sem er meira á litin eins og dýraafurð en vatnsmálning og inniheldur minna af sykri á desilítra en kók), rambaði ég á gríska jógúrt sem heitir Total. Og viti menn, Total jógúrt er ekkert annað en skyr... já, ég sagði SKYR. Þar með er mýtan rofin um það að skyr sé hvergi í heiminum framleitt nema á Íslandi. Reyndar fékk ég líka skyr á Indlandi, alvöru þykkt eldsúrt skyr.

Í morgunmat í dag smakkaði ég svo Total með trefjum og ávöxtum og mér til mikillar gleði og hamingju, þá bragðast það alveg eins og trefjajógúrt frá Mjólkursamsölunni. Á meðan ég gæddi mér á skyrinu, skoðaði ég umbúðirnar. Þær voru sko hreint ekki ameríkulegar heldur. Næringarinnihald var miðað við 100g af vörunni en ekki "per serving" og svo kom ég auga á EU stimpil á dósinni. -Það hlaut eitthvað að vera. Total er sumsagt framleitt í Grikklandi en ekki hér í BNA.

Ég skyldi þó ekki rekast á súrt slátur á næstunni!

Rugl
 
Mér finnst þetta fáránlegt. Er enginn hræddur um að ef Íslendingar eru endalaust beittir þvingunaraðgerðum af hreintungufasistum, þá hætti þeir bara að nota íslensku?

 
Það er ekki einleikið með veðrið í þessari borg.... Í síðustu viku voru 37°C, en í dag er sama hitastig og var á Svalbaraða í síðustu viku...

sunnudagur, apríl 21, 2002
Fótbolti
 
Ég fór eitthvað að pæla í gær í því hvaða strákar sem ég þekki séu fótboltaáhugamenn og hverjir ekki. Ég komst nú ekkert ofboðslega langt í þeim pælingum, en þegar ég fór yfir það í huganum hvaða stráka ég þekki sem fíla ekki fótbolta þá var eitt a.m.k. ljóst. Nær enginn þeirra stráka, sem ég þekki, sem ólust ekki upp hjá föður sínum, eru fótboltaáhugamenn. Nú er ég ekki að segja að menn sem fíli ekki boltann eigi ekki gott samband við föður sinn. Þetta fótboltadæmi er bara eitthvað svo mikið "bonding" dæmi fyrir karlmenn. Þeir geta "bondað" við hvern sem er ef hann bara heldur með sama liðinu í enska boltanum. Þetta er líka svona heimur sem maður skilur ekki alveg nema maður sé "innfæddur".

Ég vona að ef að ég eignast einhverntíman strák, að þá verði hann fótboltastrákur.

laugardagur, apríl 20, 2002
Fréttir
 
Fréttir hérna í Ameríkunni eru langt frá því að taka íslenskum fréttum fram. Maður hristi oft hausinn heima þegar löngum tíma var varið í umræðu um sauðburð, löggur að hjálpa öndum yfir götu eða eitthvað álíka og fannst það frekar sveitó að horfa á svona fréttir. Við erum hins vegar á því að þetta sé enn verra hér. Það eru eiginlega ekkert nema ekki-fréttir hér í sjónvarpinu. Endalaus viðtöl við fólk að bíða í röð til þess að kaupa lottómiða og þaðan af verra.

Í dag var hins vegar nóg af fréttum, vegna náttúruhamfara sem yfir fylkið hafa riðið undanfarna daga. Miklar skemmdir urðu í þrumuveðrinu í gær, og það dó meira að segja ein manneskja. Svo var jarðskjálfti í fylkinu í morgun, 5,0 á Richter, sem mér finnst nú bara vera alveg slatti, sérstaklega svona utan stórra skjálftasvæða. Svona skjálfti hefði nú kannski ekki skemmt mikið heima, en hérna eru svo mörg hús byggð úr múrsteinum og það er ekki gott í jarðskjálfta. Sem betur fer dó enginn, en það var mjög fyndið að heyra viðtöl við fólk um það hvernig það upplifði skjálftann. Ein konan, sem býr á Manhattan varð skíthrædd og hélt að það væri önnur hryðjuverkaárás í gangi.

Fáránlegasta fréttin var að lögreglan á Long Island var að gera eiturlyfjaleit í einhverju dópbæli. Það vildi svo illa til að einn lögreglumannanna hrasaði, datt á félaga sinn, sem féll til jarðar og við það hljóp skot af byssu hans sem hitti gangandi vegfaranda í hausinn....


föstudagur, apríl 19, 2002
Sjúga tré í sig eldingar?
 
Það rigndi sko ekki köttum og hundum í dag, en um fimmleytið dimmdi skyndilega. Ég varð alveg hreint yfir mig hissa og skildi ekki hverju þetta sætti, en þá minntist einhver á að það hlyti að vera óveður í aðsigi. Tíu mínútum seinna buldi vindurinn á gluggunum á rannsóknarstofunni og eldingar tóku að leiftra allt um kring. Það var reyndar pínu flott að sjá það svona hátt uppi, en ekki alveg eins gaman þegar ég þurfti að fara heim. Ég var sko bara á stuttermabol og berfætt í sandölum. Ég dýfði mér út í þrumuveðrið og óð polla á sætu sandölunum mínum. Veðrið var alveg í hámarki og eldingum laust niður allt í kring. Ég hef aldrei áður verið svona inni í miðju þrumuveðri, svona nálægt sjálfum eldingunum, og það sem kom mér svo á óvart var að í hvert skipti sem að eldingu sló niður, þá hitnaði úti. Í eitt skiptið, þá kipptist ég alveg til, það var líka svo spúkí úti, mjög dimmt og einhver krakki organdi úti á götu og mamma hans öskrandi á hann að vera ekki nálægt trjánum því þau drægju í sig eldingarnar. Reyndar eru mjög háar byggingar þarna allt í kring, þannig að ég held að þessi yfirlýsing hjá henni hafi nú mest verið byggð á hjátrú. Ósjálfrátt færði ég mig þó götumegin á gangstéttina til þess að vera sem fjærst trjánum. Ég var orðin alveg hundblaut þegar ég kom á lestarstöðina en það var kannski bara ágætt. Skórnir mínir meiða mig nefnilega af því að það er leðurband á þeim sem þrengir að og ég var búin að vera að hugsa um það allan daginn að ég þyrfti að bleyta það til þess að rýmka skóna. Nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því lengur.

Hitabylgja
 
Ætli hitabylgja geti spill hjónaböndum? Í fyrrinótt sváfum við nefnilega ekki neitt, bara byltum okkur og byltum okkur og skiptumst á að vekja hvort annað. Enda var 37°C í fyrradag og hitinn eftir því um nóttina. Við vorum því ekki í okkar besta formi í gær og fórum snemma að sofa, en allt kom fyrir ekki, dansinn byrjaði aftur og svefnfriður fyrir hvorugt okkar, þrátt fyrir að hitinn væri nú aðeins að lækka. Á endanum tók ég koddann minn og bjó um mig á svefnsófanum í stofunni og sofnaði um leið og ég lagði höfuðið á koddann.

Þetta gengur auðvitað ekki, það er nokkuð ljóst að við verðum að fá okkur loftkælingu fyrir sumarið...

fimmtudagur, apríl 18, 2002
On that roller coaster
 
Það er ótrúlegt hvað ég get orðið glöð þegar tilraunirnar mínar virka. Ég er búin að vera syfjuð og þreytt í allan dag vegna þess að ég svaf ekkert fyrir hita í alla nótt. Ég mætti í vinnuna og vann með hangandi hendi. En viti menn, ég fékk jákvæða niðurstöðu úr tilraunum mínum og vandamál sem ég er búin að vera að kljást við í tvo mánuði virðist vera úr sögunni. Chai fór að hlæja að mér þegar ég brosti svo breitt að andlitið á mér rifnaði næstum í tvennt. Nú er mér sko alveg sama þótt ég komist ekki heim fyrr en mjög seint, þetta var nóg til að vekja mig og redda deginum algerlega.. Var ég pirruð í fyrradag? Getur það verið? Ég man sko ekki eftir því lengur...

miðvikudagur, apríl 17, 2002
Leikandi og létt
 
Það er margfaldur lottópottur á fleiri stöðum en á Íslandi. Hér er lottó sem heitir The Big Game þar sem potturinn er einhverjar skrilljónir þessa dagana að mér skilst (les: hef ekki tekið eftir upphæðinni, enda finnst mér stórar tölur í dollurum talið bara vera = Fullt af peningum). Það eru einhverjar sáralitlar vinningslíkur í þessu lottói, (les: lagði ekki á mig að muna líkurnar), en fólk er nú samt sem áður búið að standa tímunum saman í biðröðum undanfarnar vikur, með dollaramerki í augunum, til þess að kaupa miða. Við hjónin vorum að horfa á fréttir þegarþað var enn sem oftar gengið á fólk í slíkri biðröð og það spurt hvað það ætlaði að gera við skrilljónirnar. Þetta er reyndar algert "pet project" hjá fréttastofunum þessa dagana, ég hef séð svona frétt nokkrum sinnum í víku undanfarið. Jæja, en það sem gersamlega gerði útaf við mig og bræddi í mér heilasellurnar var það að ofurmeikaða fréttakellingin með dallasvængjahárgreiðsluna endaði fréttina á að snúa sér brosandi að myndavélinni og segja: "And contrary to what many people believe, you don't increase your odds of winning by buying more than one ticket".... Uhuh.. okkur svelgdist á og við bara ætluðum ekki að trúa þessu, okkar skólaganga greinilega til einskis, og hvað var manni nú annars kennt í tölfræðinni í háskólanum?

Þegar ég fór út að skokka í gærmorgun kom svo skýringin. Það var engin önnur en daman í Howard Stern útvarpsþættinum á K-Rock sem kom með svarið. Maður eykur sko líkurnar ekki mjög markvert á því að kaupa fleiri en einn miða, því svona gróft á litið, eru tveir á móti skrilljón milljónum alveg jafnlitlar líkur og einn á móti skrilljón milljónum. Hmmm... Maður er nú samt að tvöfalda vinningslíkurnar á að kaupa tvo miða, er það ekki?

Ef ég vissi nákvæmlega tölfræðilegar staðreyndir þessa máls, þá myndi ég nú kannski biðja hann Kristján um að reikna fyrir mig væntigildi einnar raðar til þess að komast að því hvort að það borgi sig að kaupa svosem eins og eina röð. Kannski ekki, það eru nefnilega 16% meiri líkur á því að maður deyji á leiðinni að kaupa miðann heldur en að vinna þann stóra...

 
Nákvæmlega það sem ég var að hugsa...

Palestína
 
Í dag voru mótmæli á Columbia campusnum. Það sátu nokkrir krakkar í hring á aðaltröppunum og hrópuðu: "We are all Palestinians". Þetta kom mér nokkuð á óvart, því gyðingar eru mjög sterkt afl í skólanum, og maður sér iðullega unga menn á vappi með svona kollhúfu "new wave" greiðslunni. Ég var samt mjög ánægð að sjá þetta, því að það er búið að vera svo mikill pro-Israel áróður í öllum fjölmiðlum að mér finnst ég vera að kafna, og ég er eiginlega farin að forðast það að lesa fréttir, bara geðheilsunnar vegna, ég verð alltaf svo brjáluð við að hlusta á níðinginn hann Sharon tala um stríð gegn hryðjuverkum...
Þegar við gengum framhjá varð Noeliu vinkonu minni, sem er gyðingur, að orði: "Yes, I don't like what Sharon is doing, he is making the world hate us...."

Öfugsnúið
 
Mér finnst alltaf jafnskrýtið að vera deyja úr hita úti og fara inn til þess að kæla mig niður. Eins að finnast veðrið best á kvöldin, því þá er ekki eins heitt. Þannig er lífið hér þessa dagana, því það er hitabylgja og hitametin slegin á hverjum degi. Í dag eiga að verða 35°C úffbarasta segi ég nú bara...

þriðjudagur, apríl 16, 2002
Takk fyrir að senda mér fagrar hugsanir...
 
Vítahringurinn rofinn, júhú!!! En djö**** er heitt úti maður...

mánudagur, apríl 15, 2002
Tímaflakk
 
Argh.... Ég sit hér enn eitt kvöldið og stari út í loftið og get ekki sofnað. Og auðvitað enda ég á blogginu, svona mér til hughreystingar. Ég er ekki enn búin að jafna mig á breytingunni yfir í sumartíma og er komin í hinn versta vítahring. Ég vakna nefnilega alltaf of seint til þess að mæta í ræktina, ég vorkenni sjálfri mér svo ofboðslega á morgnana fyrir það að hafa sofnað seint, þannig að ég bara kem mér ekki á lappir. Og af því að ég fer ekki og dilla mér í ræktinni, þá er ég ekki nógu þreytt til þess að sofna á kvöldin. Þetta er hið versta mál og ég þarf á öllum ykkar fögru hugsunum að halda klukkan sjö í fyrramálið á EST, sem er u.þ.b. 11 á GMT... Ég set stefnuna eina ferðina enn á að fara út að skokka í Miðgarðinum.

 
Mér finnst þessi mynd flottari, ég, Hildur og Lára í góðu geimi...



sunnudagur, apríl 14, 2002
Dilwale Dulhania le Jayenge
 
Ég var að lesa síðurnar hjá Ágústi og Siggu og þessi umræða um hindipopp vakti (óumflýjanlega) upp gamlar og góðar minningar hjá mér. Mér finnst Doob Doob o'Rama flottur diskur, en í mínum huga kemst ekkert í hálfkvisti við Dilwale Dulhania le Jayenge (enska; The Bravest one Will Cross the Bridge).

Kannski vegna þess að ég sá hana svo oft þegar ég var á Indlandi og var alltaf með spóluna í vasadiskóinu (já, það eru fleiri ár síðan en ég kæri mig um að telja, a.m.k. var ekki hægt að fá geisladiska á Indlandi þá).

Ég ákvað að leita á netinu og finna tónlistina úr þessari frábæru Bollywood-mynd til þess að leyfa lesendum að njóta hennar, og kannski líka af því að ég er búin að týna spólunni. Og viti menn, ég fann síðu þar sem hægt er að hlusta á öll lögin úr myndinni (bara ekki haka við fleiri en eitt lag í einu, þá kemur bara einhver auglýsing frá símafyrirtæki). Núna væri ég líka til í að eiga gemsa, því að það er líka hægt að fá "hringitóna" með lögum úr myndinni.

Þegar ég hlustaði á Tuje teka to, þá fékk ég alveg sting í magann af nostalgíu. Ég fann lyktina sem var svo einkennandi fyrir marga staði á Indlandi, svona sambland af skítafýlu og kryddlykt, mundi eftir röku og heitu loftinu, en síðast en ekki síst, þá mundi ég eftir því að þegar þetta lag kom í myndinni í fyrsta skipti sem ég sá hana, snéri Sattar, litli indverski strákurinn sem ég fór með í bíó sér að mér og sagði: "Erna, You, me, boyfriend, girlfriend, yes?".

Lestur, skokk og veðurpadda
 
Ég er búin að hafa það svo fínt í dag. Ég fór ekki á fætur fyrr en á hádegi, og las ónæmisfræði allan seinnipartinn, sem var ekki leiðinlegt. Um sexleytið fór ég svo út að hlaupa. Það var aðeins farið að kólna og alveg hreint frábært skokkveður. Hitinn fór sko upp í 22°C í dag, það er alveg greinilegt að það er komið vor, trén í Central Park í blóma, í fjólubláu, bleiku og gulu og ilmurinn eftir því.

Ég er komin með alveg snilldargræju á tölvuna hjá mér. Það er Weather Bug, en hún er á stikunni fyrir neðan desktoppin og segir manni hvaða hiti er úti (í Central Park í mínu tilviki). Svo getur maður smellt á hana og fengið veðurspá. Það sem mér finnst best er að hún sýnir hitastigið í gráðum á Celsíus, ekki Farenheit. Hún virkar samt aðeins ef maður er sítengdur og það er bara hægt að fá upplýsingar um Bandaríkin í henni.

föstudagur, apríl 12, 2002
Fínn þessi bjór maður.
 
Þetta var bara aldeilis fínt barkvöld. Ég var að skríða heim og er að borða bláberjabeyglu með rjómaosti, svona til þess að gefa líkamanum orku til þess að vinna úr ósköpunum.

Þetta var alveg dæmigert bjórkvöld. Við byrjuðum á Telephone Bar og svo um tvöleitið endaði sami hópurinn og venjulega á Swift's Hibernian. Mörður fór síðan á einhvern annan bar með Einari Frey, en ég gafst upp og fór heim. Það var ekkert smá fínt að hitta allt íslenska gengið aftur, og nú stefni ég á að halda stelpupartí eftir tvær vikur. Búin að fá pössun fyrir Mörð og allt, Pétur tók það að sér, en hann verður heima með frumburðinn og Eyrún kemur í partý. Ég hlakka ekkert smá til.

En nú held ég að málið sé að skríða undir sæng og hvíla sig fyrir afrek morgundagsins.

fimmtudagur, apríl 11, 2002
Barkvöld
 
Erna er að leggja lokahönd á andlitsfarðann. Ég get varla beðið eftir að komast af stað. Við erum á leið á bjórkvöld. Fyrst ætlum við á wrapfactory svo ætlum við að koma við hjá Einari Frey og svo beina leið á Telephone Bar and Grill. Yessöríbob. Erum að hlusta á Joe Locke. Sami diskur og Ella Maja fær í verðlaun fyrir getraunina um Smoke (Ella Maja ég er ekki að hlusta á diskinn sem þú færð, ég keypti tvö eintök). Algjör klassadiskur.

Bjór, bjór, bjór
 
Ég var ekkert smá fegin að það var ekki fyrirlestur í skólanum í morgun. Þá gat ég unnið allan daginn og komið snemma heim. Nú er ég að fara að gera mig fína og sæta, því við Mörður erum að fara á bjórkvöld Íslendingafélagsins. Jeijj.. Þar verður ábyggilega fullt af skemmtilegu fólki. Og nóg af bjór. Það er ekki heldur fyrirlestur í fyrramálið, þannig að ég get sofið út, það er nefnilega líka lítið að gera á labbinu. Ég þarf bara að einangra smá RNA, svosem eins og nokkur míkrógrömm.

Ég er líka að bræða það með mér að fara í gönguferð um helgina, ef Mörður nennir með. Það er yfirvofandi heimapróf í taugalíffræði, en mér segir svo hugur að kennararnir mínir eigi ekki eftir að nenna að semja prófið fyrr en um helgina. Þá verð ég sennilega í tveimur heimaprófum um þarnæstu helgi.

miðvikudagur, apríl 10, 2002
Rokkettí rokk
 
Rokkið stoppar ekki. Vísindin voru skemmtileg aftur í dag. Að minnsta kosti rokkuðu þau nógu feitt til þess að ég geti haldið áfram með tilraunirnar mínar án þess að endurtaka neina af tilraunum dagsins.

Í kvöld er stefnan að slappa af og fara snemma að sofa, svo að ég lufsist á lappir nógu snemma til þess að spretta úr spori í Miðgarði.

Sumartímavesen
 
Líkamsklukkan hjá mér er ekki búin að skipta yfir á sumartímann. Ég er orðin svo vön því að vakna rétt rúmlega sjö og rjúka út í gymmið í skólanum og æfa fyrir tíma.
Núna vakna ég hins vegar enn klukkan rúmlega sjö á vetrartíma, en gallinn er bara sá að þá er klukkan orðin rúmlega átta á sumartíma og of seint að fara að æfa, því að maður þarf að ná að skrá sig á hlaupabrettið sem maður ætlar að nota, og það er ekki sjéns eftir klukkan átta.
Í dag fer ég því svekkt og algerlega óæfð í tíma...

þriðjudagur, apríl 09, 2002
Mikið var
 
Vísindin rokka aftur feitt í dag, þokkalega. Ég er loksins að fá einhverjar konkret niðurstöður, ég vona að þetta endist eitthvað. Meira að segja staðalkúrfan mín var fullkomin, en fólk á yfirleitt í erfiðleikum með hana. Mikið var, segi ég nú bara, ég held ég hafi aldrei vandað mig jafnmikið við neina tilraun sem ég hef gert.

mánudagur, apríl 08, 2002
 
Saint Germain á fóninum, farið að dimma úti, kósí fílíngur við skrifborðið mitt þar sem ég sit við að undirbúa tilraun morgundagsins...

Vísindin rokka feitt í dag.
 
Ég fíla prófessorinn minn í tætlur. Hún kann ráð við öllu. Ég fór til hennar í dag til þess að ráðfæra mig við hana varðandi vandræði síðustu viku.
Ég bjóst þess vegna við því að hún yrði eitthvað pirruð af því að ég náði ekki að gera þetta 100% rétt, en þá var hún bara mjög uppörvandi og sagði að ég væri greinilega að fara rétt að, það væri hins vegar aðferðin sjálf sem væri pínu gróf, og þess vegna væri þetta alveg eðlilegt. Þess vegna fundum við bara, í sameiningu, ráð til þess að komast hjá þessum erfiðleikum með sem minnstri fyrirhöfn, og tilraunirnar mínar eru aftur farnar að rúlla... Svona eru vísindin líka stundum skemmtileg =)

 
Oooooo..... Ég breytti lúkkinu á síðunni um helgina, og nú er síðan okkar hætt að koma fram á RSSinu hjá Árdísi og Stellu og Kristjáni.. Fúlt, fúlt, fúlt.

sunnudagur, apríl 07, 2002
Herra Nasa
 
Á síðunni hennar Árdísar er komin útskýring á því hver Hr. Nasa er.

Seder for Peace in the World.
 
Í gærkvöldi fórum við Mörður í heimboð til foreldra hans Joss, nágranna okkar og skvasspilara. Tilefnið var hið svokallaða "passover", sem er páskahátíð gyðinga, en faðir hans Joss er gyðingur. Móðir hans er hins vegar prestur að kristnum sið. Við vissum auðvitað ekkert um hvað málið snérist, þar sem við erum ekki mjög vel að okkur í gyðinglegum siðum og hefðum.
Það eina sem við vissum er að það yrði lambakjöt í matinn og að það væri skylda að drekka að minnsta kosti fjögur vínglös.

Eins og áður sagði, er passover páskahátíð gyðinga og hún er haldin hátíðleg til þess að minnast brottfarar þeirra frá Egyptalandi. Máltíð þessi sem við tókum þátt í er kölluð Seder, og er einskonar helgiathöfn helguð lausnar gyðinga úr ánauð og kúgun Egypta. Sérhver fjölskylda hefur sín eigin tilbrigði og hefðir við þessa athöfn, og má segja að hefðir Wolff fjölskyldunnar einkennist mjög af bakgrunni foreldranna sem voru í háskóla á hippatímabilinu.

Við settumst til borðs um fimmleytið, um 15 manns voru í boðinu og á diski hvers og eins var bók sem kallast Haggadah og söngvahefti með hippasöngvum eftir menn eins og Dylan og fleiri... Faðir Joss hóf máltíðina með því að segja frá bakgrunni hennar og lýsa því yfir að fyrir honum væri þetta ekki trúarleg athöfn í beinum skilningi þess orðs heldur einskonar bæn um frið í heiminum. Síðan tóku allir upp sína Haggadah og við skiptumst á að lesa upphátt upp úr bókinni og inn á milli var texti sem allir lásu saman. Þetta var örlítið ruglingslegt því að maður byrjar að lesa þá bók aftast og flettir "afturábak" og svo var hluti af textanum á hebresku, ýmist með latnesku letri eða á "hebresku" letri (sem ég man ekki hvað heitir). Á hinum og þessum stöðum í textanum tók Melissa konan hans Joss upp gítarinn og við sungum hippasöngvana úr bókinni.

Það eru líka ákveðnir helgisiðir í kringum matinn. Til dæmis má bara borða óhefað brauð, einskonar flatbrauð, með matnum, því þegar Ísraelar flúðu úr ánauðinni höfðu þeir ekki tíma til þess að leyfa brauðdeiginu að hefast, heldur bökuðu það óhefað. Aðeins má borða rótarjurtir með lambakjötinu, og þá helst rótarjurtir með bitru bragði eins og piparrót. Þannig var fyrsta brauðið látið ganga milli manna og allir fengu bita og borðuðu piparrót með. Hið bitra bragð piparrótarinnar er táknrænt fyrir ánauð Ísraela og kúgun og einnig er það táknrænt fyrir alla þá ánauð og kúgun sem fólk má þola í heiminum í dag.
Þegar kom að því að borða kartöflurnar, var það ekki svo einfalt, því að þær eiga að vera í bitum í saltvatni, og menn eiga að keppast, hver með sínum gaffli, um að vera fyrstur sessunautanna að ná kartöflu upp úr saltvatninu. Í sumum skálanna varð af því kartöflumús.... Einnig þurftum við að berja sessunaut okkar með vorlauk nokkrum sinnum á meðan ákveðið vers var sungið, og svo þurftum við að skvetta víndropa með litlaputta á diskinn okkar fyrir hverja af plágunum tíu. Það var ekki fyrr en allt þetta var afstaðið, um fjórum tímum eftir upphaf máltíðarinnar að farið var að framreiða aðalréttin.
Það er ekki hægt að segja annað en að Mörður hafi unnið hug og hjörtu gestgjafanna fyrir snilldarskurð á lambakjötinu. Ég sagði þeim að hann hefði unnið hjá kjötiðnaðarfyrirtæki á Íslandi, en ég hafi nú haldið að hann hefði bara verið sendill!

Á borðinu er líka svokallaður Seder diskur, sem á eiga að vera ákveðnir hlutir eins og bein úr lambi, piparrót, egg og fleira sem ég man ekki. Allison, systir Joss kom með nýja hefð inn í athöfnina, þar sem hún setti appelsínu á Seder diskinn og sagði þá sögu að það væri helgur staður gyðinga í Jerúsalem sem konur hefðu ekki aðgang að, aðeins karlar. Þegar bandarísk kona nokkur ætlaði þangað inn þá hafi Rabbíi staðarins sagt við hana að konur væru jafnviðeigandi þar inni eins og appelsína á Seder diskinum. Síðan þá hefur sú hefð að setja appelsínu á Seder diskinn breiðst út eins og eldur í sinu á meðal gyðingakvenna og sumar hafa meira að segja gengið svo langt að senda Rabbíum sínum kassa fulla af appelsínum á passover.

Það var eitthvað um pólitískar umræður á meðan við biðum eftir aðalréttinum, og það var nokkuð ljóst að veislugestir voru ekki fanatískir gyðingar, og höfðu áhyggjur af þeim atburðum sem eiga sér stað í heiminum í dag. Það er líka alveg dæmigerð afstaða fyrir vel menntað fólk hér, þenkjandi fólk.
Á milli aðalréttar og eftirréttar var sungið meira og drukkið meira af rauðvíni, og það var ekki fyrr en undir miðnætti að máltíðinni lauk og við vorum keyrð út á rútustöð eftir eina eftirminnilegustu máltíð sem við höfðum átt.


Myndir
 
Ég er loksins búin að laga myndaalbúmið okkar frá því að Bravenet hrundi. Þannig að nú er kominn hlekkur efst í hlekkjalistann okkar hér til vinstri, sem vísar á myndirnar.
Hvað finnst ykkur um breytingarnar sem ég gerði á lúkkinu á síðunni? Betra eða verra. Ég held að það sé auðveldara að lesa textann eftir að ég mjókkaði textadálkinn og stækkaði letrið oggupons. Allar uppástungur eru vel þegnar.

Summertime and living is....
 
Ég var ofboðslega stolt af sjálfri mér að vakna klukkan níu í morgun, kveikti á tölvunni og hellti kornflexi í disk. Þegar ég leit aftur á tölvuna sá ég mér til mikillar skelfingar, að tölvan hafði ekki startað sér alveg upp, heldur voru greinilega einhver villuboð á skjánum. Ég fór og athugaði málið, þá var það nú ekki alvarlegara en svo að tölvan var að láta mig vita að hún ætlaði að skipta yfir í sumartímann og sagði mér að klukkan væri orðin tíu...

föstudagur, apríl 05, 2002
Enn af sköttum....
 
Ég var á skattafyrirlestri fyrir útlendinga áðan. Það var langur og leiðinlegur fyrirlestur. Þetta var samt alveg frábær fyrirlestur, af því að ég komst að því að ég þarf ekki að borga skatta hér í fimm ár, af því að ég fæ svokallaðan "fellowship" frá Columbia. Og Mörður þarf ekki heldur að borga svokallaðan Social Security skatt, þannig að við erum á grænni grein þessa dagana.
Annars er frekar fyndið hvernig maður gerir skattskýrsluna sína hér. Maður reiknar einfaldlega út á skýrslunni hversu mikið maður hefði átt að borga og hversu mikið maður borgaði á síðasta ári í skatt. Og ef maður á að fá eitthvað endurgreitt setur maður bankareikningsnúmerið sitt í þartilgerðan reit og sex vikum síðar fær maður endurgreitt. Ekkert smá nett! Þetta er nú samt einfaldara heima þar sem þetta er allt á netinu og útfyllt fyrir mann þannig að maður þarf ekki að gera mikið meira en að logga sig inn og ýta á enter...

Bjútíblogg
 
Stína fína fær verðlaun vikunnar fyrir kúlasta lúkkið á Bloggi sem ég hef séð! Svo er hún líka svo dugleg að uppfæra stelpan, og ekki skemmir það hvað hún skrifar skemmtilega. Ef þið eruð ekki nú þegar búin að kíkja á blogið hennar þá er einmitt tækifæri til þess að gera það núna!

fimmtudagur, apríl 04, 2002
 
Það er einhver vinnusjúklingur inni í Íslenskri Erfðagreiningu, sem skoðar síðuna okkar á annarlegustu tímum. Þannig hef ég fengið hitt um miðja nótt á virkum dögum, og á ótrúlegustu tímum um helgar. Reyndar gætu þetta verið fleiri en einn einstaklingur, en afskaplega finnst mér gott að vita að mínir fyrrverandi vinnufélagar séu iðnir við sitt.

Í dag var líka einhver hjá NASA sem skoðaði síðuna. Það er örugglega sá sami og Hr. Nasa, sem Árdís lýsti eftir á sínum tíma (fann ekki sjálfa færsluna).

Ekki fór sem á horfðist...
 
Vísindin, vísindin, ójá, vísindin eru stundum erfið. Þetta var ekki alveg að ganga hjá mér í dag. Ég er búin að vera að einangra RNA úr B-frumum úr músarmilta. Málið er að ég fæ alltaf svo skrýtnar niðurstöður fyrir B-frumur "í hvíld", og fyrst hélt Chai, sem er leiðbeinandinn minn á labbinu, að ég væri að gera eitthvað vitlaust. Þannig að hann er búinn að fara í gegnum þetta allt með mér nokkrum sinnum, og ég er ekki að klikka á neinu. Þannig að í gær lagðist ég til atlögu og endurtók allt ferlið, full sjálfstrausts, viss um að nú væri ég með þetta alveg á hreinu. Svo í dag keyrði ég RNA gel til þess að skoða niðurstöðuna, og allt kom fyrir ekki, enn var sama vesenið í gangi. Það góða er samt að nú veit ég að þetta er ekki mér að kenna, ég er að fara alveg rétt að, það er eitthvað annað kerfisbundið að aðferðinni sem við ákváðum að nota.
Það versta er að ég var búin að plana alveg geðveika vinnuhelgi til þess að ná í einhverjar niðurstöður í verkefninu, en ég get ekki haldið áfram fyrr en ég er búin að tala við prófessorinn, hana KC, og ráðfæra mig við hana.

Ekkert vorveður lengur
 
Já, það er sko enginn tuttuguogfimmstigahiti hér í dag, eins og í gær. Litlar fjórar gráður og aftur kominn vetur. Það er kannski ágætt af því að ég þarf að vinna langt fram á kvöld. Á morgun á hins vegar að verða hlýrra aftur og þá er ég einmitt að fara í allskonar útréttingar og flandur. Eins gott að sú veðurspá rætist.

Það verða líka allir að hugsa fallega til mín í dag, því að ef tilraunin mín heppnast, þá er ég komin á fullt blúss í verkefninu mínu og vísindalegar uppgötvanir liggja handan við hornið...

miðvikudagur, apríl 03, 2002
Vorveður
 
Það er samt eitt sem er betra í Ameríku en á Fögru landi ísa, og það er veðrið! Ég er að grillast núna, en fólk í kringum mig trúir mér eiginlega ekki að það verði aldrei heitara en þetta á Íslandi, allaveganna ekki í Reykjavík. Ég sannfærðist líka endanlega um það í daga að það væri komið sumar, þegar ég sá að það var búið að setja borðin og sólhlífarnar út á svalir í kaffiteríunni. - Vorboðinn ljúfi eða hvað? Verst að þurfa að vera inni að vinna í allan dag í stað þess að geta spókað sig í sólinni!!

Þessi færsla var gerð með hjálp lyklaborðssíu Sindra.

þriðjudagur, apríl 02, 2002
Skattaskratti...
 
Já, þá er kominn framtalstími enn og aftur, líka í henni Ameríku. Eins og venjulega er maður að þessu á síðustu stundu. Þetta er líka svo fáránlegt hér. Maður þarf að láta allskonar bréf fylgja, og ég fæ ekki launamiða fyrir öllum styrknum frá skólanum, þrátt fyrir að ég hafi borgað skatt af honum. Dö, málið er nefnilega að Kanarnir borga ekki skatt af styrknum, þannig að þeim dettur ekki í hug að það þurfi að senda skattborgandi útlendingum launamiða. Huh.. og svo var ég auðvitað búin að týna bréfinu frá Fulbright um að ég hefði fengið styrk frá þeim, og ekki finn ég blaðið þar sem stendur hvaða eyðublað ég eigi að fylla út fyrir þann pening. Þetta er miklu einfaldara heima. Bara nokkrir reitir að fylla út. Sérstaklega fyrir fólk eins og okkur sem er svo heppið að vera ekki búið að vefja sig í fasteignakaupavesen. En það er líka allt, sama hvað það er, miklu einfaldara heima. Einn góður kostur við fámennið á Fróni.

mánudagur, apríl 01, 2002
Engin aprílgöbb í Ameríku
 
Mér finnst Kanarnir nú ekki standa sig alveg nógu vel... það er ekki búið að vera neitt aprílgabb í gangi.. Hvorki í vinnunni né í fjölmiðlum. Mér finnst þetta miklu skemmtilegara heima á Íslandi þar sem fjölmiðlar keppast um að gabba fólk upp úr skónum.
Reyndar sagði Dr. Calame (prófessorin sem ég vinn hjá þessa dagana) okkur frá frekar fyndnum "practical joke" sem einn af gömlu uppáhalds nemendum hennar tók upp á. Málið er það að fyrir einhverjum árum síðan átti að tengja tölvurnar á labbinu við skólanetið. Gaurinn áðurnefndi bað Cathryn (aka. Dr. Calame) um að vera nú ekki að spandera peningum í að fá einkafyrirtæki til þess að gera það og reddaði málunum sjálfur. Hann fór upp á næstu hæð, en í Hammer byggingunni er svona 1/2 hæð á milli allra hæðanna fyrir allar leiðslur og dótarí, og þar boraði hann og dró inn leiðslur og nettengdi labbið. En á sama tíma ákvað hann að nota tækifærið og boraði gat í loftið fyrir ofan bekkinn hjá öðrum doktorsnema og lagði leiðslu þaðan alla leið að skrifborðinu sínu, sem var 10 metra í burtu. Svo sat hann í rólegheitum við skrifborðið og sprautaði vatni í leiðsluna og lét drjúpa á hausinn á samnema sínum. Sá var ekki hress og var alltaf að kalla á húsvörðinn til þess að fá hann til að laga lekann. Sagan segir að komist hafi upp um kauða þegar hann varð gráðugur og lagði aðra leiðlu að skrifborði samnemans....




Myndirnar Okkar



Sendið okkur línu


Við erum að fíla:
Heimur hlauparans
Theodore Roosevelt
Dilwale Dulhania le Jayenge
Sigur-Rós
Cesaria Evora
Joe Locke