<
Dagbók Ernu og Mödda
Blogg:
Soffía
Stína
Herdís
Bumbublogg


Hlekkir:
Drudge Report
Sálufélaginn
Liverpool
The Onion
Félagið Ísland-Palestína
Columbia
Columbia Bio

Nýtt blogg -->









Gamlir dagar:






Powered by Blogger
Kíkið á nýju heimasíðuna og nýja bloggið okkar! www.ernaogmoddi.com www.ernaogmoddi.com/blogg



sunnudagur, júní 30, 2002
Næturgestur
 
Þegar við sátum og horfðum á sjónvarpið í gærkvöld, heyrðum við allt í einu eitthvað torkennilegt hljóð inni í eldhúsi. Mörður stóð upp og ætlaði að skrúfa fyrir kranann, vegna þess að það dropaði úr honum, en svo var ekki raunin, það var alveg skrúfað fyrir kranann. Þegar hann settist aftur heyrðum við hljóðið aftur og slökktum á loftkælingunni og sjónvarpinu. Já, það bar ekki á öðru, það kom eitthvað skrjáf úr eldhúskróknum.

Ullabjakk, ég sá fyrir mér risavaxna kakkalakka undir ísskápnum okkar. Við héldum algerlega kyrru fyrir til þess að reyna að staðsetja hljóðið, og þá allt í einu sá ég eitthvað grátt loðið kvikindi skjótast meðfram arinhillunni og á bakvið blaðakörfuna. Ég argaði náttúrulega upp yfir mig að það væri mús eða rotta hérna inni. Eftir það hófst mikil leit, því dýrið hafði horfið eitthvert, en við lýstum inn í öll skúmaskot í íbúðinni og reyndum að finna gestinn. Allt kom þó fyrir ekki, við fundum ekki músina. Það er því óhætt að segja að við höfum haft næturgest í íbúðinni.

laugardagur, júní 29, 2002
India
 
Í gærkvöldi kíktum við á indverskan veitingastað sem Mörður hafði tekið eftir um síðustu helgi. Þegar ég kom inn á staðinn mundi ég einmitt hvað það var sem mér líkaði best við Indverja á ferðum mínum í þeirra landi. Það er einlægni þeirra, sem jaðrar við að vera barnsleg á köflum. Staðurinn var kósí, skreyttur með speglateppum og myndum frá Indlandi. En það sem gerði þennan stað að ekta indverskum í mínum huga voru ljósaseríurnar og plastblómin út um allt sem voru gersamlegt stílbrot á stemmningunni sem speglateppin og sítartónlistin gáfu. Indverjar eru nefnilega svo mikil krútt, þeir elska ljósaseríur og hafa þær út um allt, helst blikkandi! Þjónarnir voru líka gæddir sömu einlægninni og skreytingarnar gáfu til kynna. Einn þjónanna spurði okkur hvaðan við værum og þegar við sögðum að við værum frá Íslandi horfði hann á okkur tómu augnaráði, ákvað svo greinilega að gera gott úr hlutunum og sagði: "Yes, Iceland, I´ve heard of it. In Iceland there are many many white bears!" Ehemm.. ég sagði kurteisislega að það væri rétt, að það kæmu annað slagið isbirnir upp að strönd íslands.

Þegar þjónninn kom svo aftur hafði hann greinilega ráðfært sig við félaga sína, því hann sagðist hafa séð þátt um Ísland og að þar væri ekki mikill snjór, en fólk væri almennt svona bleikt á litin eins og við og með blá augu. Hann var svo ánægður með íslensku viðskiptiptavinina að hann sagði okkur að þjónustan væri innifalin í reikningnum þegar hann kom með hann að borðinu, og gaf okkur kanilte.

Við vorum södd og sæl þegar við gengum út, og ég var komin með fiðring í magann, mig langaði svo aftur til Indlands. Einhvern tíman ætla ég þangað aftur og tek ekki annað í mál en að Mörður komi með.

fimmtudagur, júní 27, 2002
Heilasulta
 
Ég held að heilinn á mér sé að þynnast út. Að minnsta kosti finnst mér hann alltaf sýna meiri og meiri tregðu gegn vitsmunalegri örvun. Hann vill helst bara hanga þarna inni í hauskúpunni á mér í algerri slökun. Dingla sér þarna bara og láta eins og hann hafi ekkert verk að gera, engu að sinna.

Að minnsta kosti er ég búin að vera ótrúlega dugleg við það í dag að forðast vitsmunalegan þankagang, allavegana þegar kemur að vísindum. Ég þurfti reyndar að verja morgninum í skriffinnsku af því að það var verið að setja mig á launaskrá hjá deildinni minni, en það krefst slatta af skriferíi, og að ekki sé minnst á göngutúrana á milli bygginga! Þetta slær meira að segja HÍ út, því þar töltir maður bara yfir Suðurgötuna ef Pálma vantar eitthvað, en hér þarf ég alltaf hreint að vera að fara á alþjóðaskrifstofuna sem er korterslabb í burtu.

Þegar ég kláraði vinnuna, þá var planið að drífa mig heim og byrja að lesa á fullu um próteinið sem ég er að fara að klóna og tjá. En, ég þurfti aðeins bara að skreppa í bókabúðina til þess að kaupa svona "file organizer" til þess að raða öllum vísindagreinunum í sem ég er búin að vera að lesa, vúps, ég meina prenta út undanfarið. Á leiðinni upp stigann í bókabúðinni sannfærði ég sjálfa mig um að ég þyrfti nú barasta að elda kvöldmat, því það gengi ekki að borða bara eitthvað einfalt og létt, því Mörður fengi sér þá bara seríós í kvöldmat ef ég væri búin að borða á undan honum. Sem betur fer skall á þrumuveður sem forðaði mér frá því að koma við í kjörbúðinni og kaupa í matinn.

Þegar heim kom skellti ég í rísottó, en akkúrat þegar það var tilbúið hringdi Mörður og sagði að sér seinkaði úr vinnunni þar sem hann væri að bíða eftir faxi, og svo væri Björgvin að draga hann á barinn. Jamm, þannig að ég slafraði bara í mig mínu rísottói með ólífum og sveppum og á meðan notaði ég tímann til þess að fylla út kreditkortaumsókn sem ég fékk senda í póstinum. Ég veit reyndar alveg að ég fæ ekkert þetta kreditkort (þetta var meira að segja svona æ lov njúf jork vísakort), en það er um að gera að reyna!!!! Svo þurfti ég náttúrulega að vaska upp eftir matinn. Og hvað er ég að gera núna... jamm, BLOGGA!!! Það næsta sem ég tek mér fyrir hendur verður sennilega að flokka greinarnar mínar í skjaladótið sem ég keypti mér, og merkja alla vasana með skonsumiðum.... Svo loksins þegar ég verð búin með allar þær skonsuathafnir sem heimilið býður upp á, þá verður klukkan orðin allt of margt til þess að ég geti hugsað um klónun og tjáningu í meira en eina mínútu...

 
hahahahahah! nú er javaskriptið fyrir íslensku dagsetningarnar farið í klessu eftir að ég vogaði mér að breyta aðeins templatinu. Þar sem ég hef ekki tíma til þess að laga þetta núna verðið þið að njóta þessa kjaftæðis í dag!

 
Haldið þið ekki að ég hafi fundið bloggið hans Svenna Guðmars!

miðvikudagur, júní 26, 2002
Steinaldarmenning frá ****íti
 
Djísöss!! Þetta er að gerast hérna bara rétt við þröskuldinn hjá manni! Það er svo ótrúlegt hvað Bandaríkjamenn eru eftirá í jafnréttismálum, það er algerlega hneykslanlegt verð ég að segja. Ég verð bjááááluð þegar ég les þetta. Hér í landi er það viðtekin venja að konur hætti bara að vinna þegar þær verða óléttar og taka sér eitt til tvö ár til þess að ala upp barnið. Auðvitað er ekkert að því, en feðurnir gera þetta ALDREI!!! Fæðingarorlof er ekki bundið með lögum, og venjulega fær foreldri ekki greidd nein laun í fæðingarorlofi. Hjá sumum fyrirtækujum er fæðingarorlof aðeins tvær vikur. Og þegar maður talar um feðraorlof, þá eru Kanarnir sko ekki að fatta hvað maður á við. Paternal leave? Hvað er það? Eiga feður að hugsa um litlu börnin sín? Og það er líka mjög erfitt að útskýra það fyrir fólki að lögbundið feðraorlof geti jafnað stöðu kvenna á vinnumarkaðnum.

þriðjudagur, júní 25, 2002
Algert Bíó
 
Það er alltaf verið að taka upp bíómyndir á Columbia campusnum. Fyrir um tveimur vikum síðan var eitthvað svaka dæmi í gangi, þvílíkt sett á tröppunum fyrir framan Low Library og fjöldinnn af fólki í kringum leikarana, sem var að setja upp settið og færa til allar græjurnar, var ótrúlegur. Það var líka svona hvítur risastór bíll á Broadway, með dyrum á hliðunum og hver hurð var merkt með númerí á leikara. Þetta hefur örugglega verið "stjörnubíllinn" sem er með búningsklefum leikaranna.

Í dag var svo aftur eitthvað skrítið í gangi á tröppunum á áðurnefndu Low Library. Það var búið að raða upp um 20 stólum í einn hnapp á tröppunum, og svo var þarna lítill pallur með hljóðnema. Þetta stóð svona þarna í allan dag, í hádeginu var eitthvað fólk að skreyta pallinn með blómum, en svo um sexleytið þegar ég rölti inn í skóla aftur, var komið fullt af liði í leikstjórastóla þarna út um allt, og svo var urmull af fólki sem gekk um í rauðum svona Harrý potter/ Útskriftarbúningi, en litur Columbia er blár, þannig að þetta var greinilega hluti af bíómyndinni. Það sátu líka nokkrir leikarar uppi á pallinum í svona prófessorahempum, og það var verið að sminka þá, en flestir aðrir á svæðinu litu frekar gúffílega út og voru bara að bora í nefið og bíða eftir að tökur hæfust eða eitthvað.

Klukkutíma seinna þegar ég tölti aftur heim á leið, var búið að setja upp svona teina, með stól á fyrir kvikmyndatökumanninn, fyrir framan kapelluna og nokkrar manneskjur komu gangandi með leikstjórastólana sína undir hendinni og settu þá upp þarna rétt hjá.

Þegar Mörður kom svo heim klukkan hálfátta sagði hann mér að hann hefði þurft að labba frá 116 og Amsterdam Avenue, af því að Broadway var lokuð fyrir umferð. Mig grunar að það sé vegna þess að það sé verið að taka upp þessa bíómynd á Broadway í kvöld.

Miðgarðsskokk
 
Nú var ég að koma úr skokktúr í Miðgarði, einu sinni sem oftar. Garðurinn bauð ekki upp á neitt óvenjulegt eða fyndið að þessu sinni, bara hita og meiri hita og svita. Annars er ég þokkalega ánægð með skokkhringinn minn, því það er svo góður skuggi af trjánum sem slúta yfir stíginn að sólin nær ekki mikið að baka konu sem tekur upp á því að fara út að skokka (ég voga mér sko ekki að segja hlaupa) á heitasta tíma dagsins. Mílurnar virtust 10 en ekki 5 í öllum þessum hita, úff maður. En þá er það bara að skella sér í sturtu og aftur á labbann.

Tíkin
 
Mér finnst Hulda hitta algerlega í mark með þessari grein! Það er nefnilega alveg fáránlegt á Íslandi hvað það er vælt í fólki um að eignast börn, eins og það sé barasta skylda og helst sem fyrst eftir að fólk byrjar að búa saman.

mánudagur, júní 24, 2002
Urr
 
Ég held nú barasta að ein meginforsendan fyrir því að það komist á friður í Palestínu sé að Ísraelar kjósi sér nýjan leiðtoga. Arafat er að minnsta kosti að sýna vilja til samninga en það gerir Sharon ekki, og svo skil ég ekki þennan hroka að tala um að Arafat sé ekki treystandi. Sharon er sko ekkert frekar treystandi. Og ekki má heldur gleyma því að Ísraelar beyttu Palestínumenn hryðjuverkum og réðust að þeim og kviðristu meira að segja óléttar konur, hér fyrir rúmum fimmtíu árum síðan. Þetta olli svo mikilli skelfingu að flestir Palestínumanna flúðu Ísrael og hafa ekki átt afturkvæmt síðan. Og svo þykjast Ísraelar vera svo heilagir og stunda ekki hryðjuverk, á meðan grunnurinn að ríki þeirra byggir á hryðjuverkastarfsemi. Ég er orðin svo leið á þessari hræsni í Ísraelum.

Ég held samt að málið með Bush í þetta skiptið er að hann hefur ekki meirihluta á bakvið sig á þingi þegar hann stingur upp á að ríki Palestínumanna verði stofnað, þannig að hann þarf að fara svona bil beggja. - Bleyða og ekkert annað.

Ég skil það líka alveg að Arafat og hans þjóð hafi hikað við að taka samningstilboðinu sem Ehud Barak gerði þeim í Camp David á sínum tíma. Arafat hefði þurft að ganga að þeim skilmála að Palestínumenn sem Ísraelar gerðu landflótta á sínum tíma, frá Ísrael, ættu ekki afturkvæmt. Auðvitað vildi hann ekki taka því umhugsunarlaust, en hann fékk engan frest til þess að ræða þetta mál heima í sinni ríkisstjórn. Og viti menn. Nú eru Ísraelar búnir að snúa svo upp á handleggin á Arafat og pína og pynda þjóð hans svo duglega að hann á ekki margra kosta völ.

Þrumurveður?
 
Ég held að það stefni allt í þrumuveður í kvöld, það er svo heitt og rakt úti. Við færðum loftkælinguna inn í stofu í gær, en ég var samt alveg að kafna þar sem ég sat og las. Úff! Ég hlakka ekki til hitans í júlí og ágúst.

laugardagur, júní 22, 2002
Vöndur
 
Mörður kom mér ekkert smá á óvart áðan! Hann fór út í þvottahús með þvottinn okkar og kom til baka með blómvönd handa mér í tilefni af brúðkaupsafmælinu okkar. Vííí.. ég var ekkert SMÁ ánægð =)

föstudagur, júní 21, 2002
Brunaæfing?
 
Þegar ég kom röltandi heim úr gymminu seinnipartin var uppi fótur og fit á 113 stræti og Broadway. Það voru 6 slökkviliðsbílar og 2 sjúkrabílar í götunni og öll umferð um Broadway var stöðvuð. Mér brá aðeins, og svo varð ég forvitin, því að hvergi var reyk að sjá. Ég var ekki með lykla á mér og þurfti að bíða eftir Merði, og ákvað að bíða á götuhorninu og sjá hvað væri í gangi.

Allt í einu keyrði einn slökkviliðsbílanna út á mið gatnamótin og lagði þar þvert á strætið og stiginn á toppnum tók að lyftast. Mér datt í hug að þeir ætluðu að setja stigann upp að byggingunni sem ég stóð við, en nei, stiginn fór ekki lengra en upp að næsta ljósastaur. Svo klifraði einn slökkviliðsmannanna upp stigann og tók niður ameríska fánann sem hékk í einni flækju á ljósastaurnum. Slökkviliðsmaðurinn klifraði niður aftur og stiginn var dreginn niður. Í sömu andrá flugu þrjár herþyrlur yfir.

Maður í húsvarðarbúningi sem stóð við hliðina á mér hristi hausinn; "Is this what this is all about? Taking down some tangled flag? They had three fighter jets flying over here last week, and no one knows why!" Ég hugsaði eitthvað svipað, hversvegna í ósköpunum voru þeir að taka fánann niður. Svo liðu nokkrar mínútur án þess að nokkuð gerist. Þvínæst hófs stiginn á slökkviliðsbílnum á loft á ný, og aftur upp að ljósastaurnum. Sami slökkviliðsmaður og áður gekk upp stigann, og setti fánann aftur á sinn stað, en nú var búið að leysa úr flækjunni sem var á fánanum, þannig að hann blakti við hún. Síðan gekk gaurinn niður aftur, stiginn var halaður inn og brunabíllinn keyrði í burtu. Hinir bílarnir týndust svo af svæðinu, einn af öðrum.

Stuð
 
Það er svaka gaman á nýja labbinu. Skemmtilegasta labbið hingað til. Það eru allir svo duglegir að hjálpa mér, og svo hjálpast allir svo mikið að, meira en ég var vön á hinum löbbunum.

Ella stjórnar daglegu amstri á rannsóknarstofunni af mikilli röggsemi, og passar að alls staðar sé allt á réttum stað og allt hreint og fínt.

Fyrir utan stinkskápinn þar sem við vinnum með geislavirk efni stendur til dæmis:
"Children with more than four limbs get teased and are expensive to raise. -So, clean up after yourselves!"

Hróp
 
Það er greinilegt að Bandaríkjamenn eru að spila fótboltaleik núna. Ég þurfti nefnilega enga vekjaraklukku, heldur vaknaði óvenju snemma (fyrir átta!) við stunurnar og hrópin í fólki í húsunum í kring sem er að horfa á leikinn.

Svona var þetta líka á kvöldin síðasta vetur, ef það var New Yorkur lið að spila í ameríska fótboltanum, þá ætlaði stundum allt að verða vitlaust "á blokkinni".

miðvikudagur, júní 19, 2002
Kvennakaffi
 
Ég er ekkert smá stolt af móður minni og þessu uppátæki hennar í morgun að mæta á upphlut í vinnuna til þess að minna á kvennadaginn! Sagan flaug fjöllum hærra í Álverinu þar sem hún vinnur, og á endanum var haldið kvennakaffi í fyrir konurnar í fyrirtækinu. Ég frétti að Rannveig Rist hafi meira að segja monntað sig af því í Kastlósinu að það hafi verið haldið kvennakaffi í ISAL!

19. júní
 
Tjáh.. svona er netið magnað ég frétti meira að segja hvernig mamma mín er klædd í vinnunni! Hún mætti á upphlut í vinnuna. Það eru sko ekki allar konur sem halda upp á 19. júní með slíkri reisn! Gleðilega hátið konur!

þriðjudagur, júní 18, 2002
Siv!!!
 
Hah.. ef þetta er rétt sem Hr. Muzak segir um hana Siv, þá útnefni ég hana hér með heimskasta ráðherra sem Lýðveldið Ísland hefur átt. Reyndar kemur þetta svosem ekkert á óvart, það hefur löngum verið ljóst að kerlingin er nú engin mannvitsbrekka.

 
Ég var að enda við að lesa grein í New York Times um Íslenska Erfðagreiningu. Þar var stór mynd af Asthmatrénu og næstumþví tveggja síðna grein um fyrirtækið.

Þetta var mjög jákvæð umfjöllun, en samt var einhver Dr. Cox frá NIH sem var með einhverja neikvæðni, hún virtist aðallega pirruð yfir því að það væri ekki búið að birta neitt af niðurstöðum fyrirtækisins. Reyndar var líka gagnagrunninum ruglað saman við rannsóknastarfsemina sem fer fram í fyrirtækinu, en það er mjög algengt að fjölmiðlar skilji ekki muninn á þessu tvennu.

Ég var ekkert smá ánægð með þessa grein, og þetta er strax farið að hafa jákvæð áhrif á hlutabréfin!

 
Það er ágætt að einhverjir fjölmiðlamenn hér vestanhafs sjái mál Palestínu og Ísraels svona... Ég er orðin ansi þreytt á einhliða málflutningi fjölmiðla hér. Annars var líka ágætis heimildarmynd á Discovery á föstudaginn, sem tók sögu Palestínu og Ísraels fyrir. Sú mynd var heldur ekkert of hliðholl Ísrael. Hún tók ekki málstað Palestínu heldur, en málaði upp mjög svarta mynd af Sharon sem miskunnarlausum hermanni... Það var mjög áhugavert að horfa á þetta, en auðvitað hlýtur umfjöllun um þetta viðkvæma mál að vera erfið í meðförum.

mánudagur, júní 17, 2002
Beer, Bier, Cervesa, Bjór, Öl...
 
Dagurinn fór nú betur en á horfði hér fyrr í dag. Ég var búin að vinna mikið fyrr en ég bjóst við, eða klukkan átta, þannig að ég náði að fara á journal club skipulagsfund og svolgra í mig einum bjór með krökkunum áður en ég fór heim. Það var svaka stuð á fundinum og líffræðingabrandararnir flugu þvers og kruss yfir herbergið.

Ég er þokkalega ánægð að vera hérna´"downtown" í sumar, á aðalcampusnum, því að það eru svona hlutir í gangi, eins og að hittast einu sinni í viku og lesa saman vísindagrein yfir bjór og kannski smá pizzu.

Og nú er kósíkvöld heima, því ég þarf ekki að læra fyrir neina kúrsa í dag og get því bara hjúfrað mig upp að Merði á meðan þrumunum lýstur niður fyrir utan gluggan hjá okkur.

Hmu
 
Það er ekki haldið upp á sautjándann hér í Ameríku. Að minnsta kosti er enginn frídagur í dag hér vestra.

Ég mætti í vinnuna að vanda í morgun, en ég get ekki sagt að þessi dagur hafi verið gleði og ánægjuríkur. Það hefur eiginlega hvert klúðrið fylgt í kjölfarið á öðru, en sem betur fer voru þetta allt frekar saklaus mistök. Það fer mest í pirrurnar á mér hvað ég er lengi að öllu af því að ég veit ekki hvar hlutirnir eru geymdir á labbinu, og svo að vera svona háð henni Vanesu, en hún þarf að sýna mér allt sem ég á að gera og standa yfir mér og leiðbeina mér. Í dag er hún búin að vera á endalausum fundum, þannig að ég bíð bara og bíð eftir henni og á eflaust eftir að vinna langt frameftir.

Á móti kemur þó að ég er að gera skemmtilegar tilraunir, þannig að það er ekki eins og ég verði að mixa í PCR eða eitthvað í allt kvöld. Svo skemmir heldur ekki fyrir að það er undirbúningsfundur fyrir Journal Club sumarsins í kvöld klukkan sjö og til þess að lokka fólk á staðinn verður boðið upp á bjór..

sunnudagur, júní 16, 2002
Helgin
 
Þetta er búið að vera frábær helgi. Í gær fórum við hjónin niður í bæ og versluðum stuttbuxur á Mörð og dót í eldhúsið. Það var spáð rigningu, þrumum og eldingum, en ekkert af þessu lét á sér kræla og við röltum um bæinn í rólegheitum og nutum laugardagsins.

Í dag sváfum við svo fram að hádegi, við vöktum frameftir og horfðum á Svíþjóð - Senegal í beinni, en hann byrjaði ekki fyrr en hálfþrjú. Ég gafst reyndar upp í hálfleik, þrátt fyrir spennandi og skemmtilegan leik, og fór að sofa um hálffjögur, en Mörður horfði áfram. Ég var ekkert smá ánægð með að Senegal hafi unnið, mér fannst miklu skemmtilegara að sjá hvernig þeir spiluðu, það var meiri kraftur í þeim en Svíunum. Það er líka gaman þegar lið eins og Senegal koma svona á óvart.

Þegar við vöknuðum, drifum við okkur svo út og fórum á Summer Stage í Central Park. Það var salsa þema þar í dag hlómsveitin Yerba Buena hitaði upp fyrir enga aðra en salsadrottninguna Celiu Cruz. Þetta var alveg frábært. Veðrið var stórgott þegar við komum á staðinn, en við tókum þó regnhlífina með, því það var spáð skúrum. Við komum okkur fyrir á teppi fyrir framan sviðið klukkutíma fyrir tónleikana og sötruðum bjór í þægilegum skugganum frá trjánum í kring. Þetta er eitt af því sem mér finnst skemmtilegast í útlöndum á sumrin, að verja eftirmiðdegi í almenningsgarði í góða veðrinu og ekki er verra að hafa með sér smá brjór.

Þegar Yerba Buena byrjuðu að spila kom regnhlífin að góðum notum. Það komu skúrir annað slagið, en þær hindruðu engan í að dilla mjöðmunum í takt við seyðandi salsataktinn. Það stytti þó fljótlega upp og sólin vermdi okkur og hlýjaði að nýju.

Celia Cruz er sko sannarlega salsadrottning. Hún er komin yfir sjötugt, en það var sko ekki af sviðsframkomunni að sjá. Hún er sko alger megapæja. Mig langar að vera eins og Celia Cruz þegar ég verð sjötug! Það var mikil stemning á tónleikunum og fólk dansaði og dillaði sér og söng með. Celia talaði eitthvað á milli laga, en það var allt á spænsku, þannig að við skildum þá ekki, það hlógu hins vegar allir, þannig að hún hlýtur að hafa verið fyndin! Fyrir síðasta lagið hennar kom svo einhver kall frá Heineken, sem er sponsor Summer Stage, og veitti henni verðlaun. Hann talaði ensku, en þegar hún tók við verðlaununum, sagði hún einfaldlega: "I'm afraid that my english is not very good looking, so I don't know what to say; Thank you!"

Það byrjaði aftur að rigna rétt fyrir lok tónleikanna og við spenntum upp regnhlífina á ný og vonuðum að þetta yrði bara stutt í þetta skiptið. En nei, það kom þvílík úrhellisdemba að það fólk hljóp frá sviðinu og í skjól undir tré og við bara hnipruðum okkur upp að hvoru öðru, undir regnhlífinni, í hláturskasti, þetta var alveg fáránlega kraftmikil demba og þegar við litum á jörðina sáum við að hún var alsett risastórum höglum. Það runnu á okkur tvær grímur. Haglél var sko ekki það sem við bjuggumst við ofan úr himninum í NY í júní. Það stytti þó upp mjög fljótlega og fólk kærði sig kollótt um að vera rennvott og dansaði og söng áfram við síðustu lög tónleikanna.

Við vorum því vot en ánægð þegar við gengum heim á leið eftir skemmtilegan dag í Central park.

laugardagur, júní 15, 2002
 
Eru það tíðindi að Strokkur hafi gosið fyrir Zemin? Bjuggust blaðamenn Moggans kannski við því að hann mótmælti eins og flestir aðrir Íslendingar?


föstudagur, júní 14, 2002
Football, (Soccer)
 
Já, ætli ég verði ekki bara að horfast í augu við það, lífið snýst um fótbolta þessa dagana.... Meira að segja í Ameríku.

Það var ekkert smá gaman að sjá Suigi í morgun. Hann sveif um labbið. Hann er nefnilega frá Suður Kóreu.

Í matartímanum er ekki talað um neitt annað en fótbolta heldur. Sumir Kananna eru að dissa hann, finnst fáránlegt að það sé hægt að hafa jafntefli í leik (það er alltaf framlengt í amerískum boltaíþróttum), og þeim finnst fáránlegt að það sé kannski bara skorað eitt mark á 90 mínútum, finnst þetta eitthvað óspennandi. Við útlendingarnir stríðum þeim á móti og segjum þeim bara að þeir geti aldrei skilið fótbolta, því þá vanti þann hæfileika að halda athyglinni lengur en sem nemur þeim tíma sem er á milli auglýsingahléa í körfubolta og amerískum fótbolta. Og svo dissum við þá og segjum að soccer sé sko alvöru fótbolti, en amerískur fótbolti sé svo langt frá því að vera spilaður með fótunum.

Í hádeginu í dag datt einum þeirra í hug að aula því út úr sér að fótbolti væri náttúrulega ekki það alþjóðleg íþrótt, og þess vegna væri ekki hægt að ætlast til þess að Kanar væru með hann á hreinu. Svo tók hann tennis sem dæmi um miklu alþjóðlegri íþrótt en fótbolta. Guði sé lof að hin skapmikla argentínska Vanesa var ekki á svæðinu, þá væri hann sennilega ekki lengur á lífi.

Það sem mér finnst gaman við þessa umræðu er það að það leyfir manni að gera pínu grín að Bandaríkjamönnum án þess að þeir móðgist.

Hins vegar eru Kanar að taka við sér núna þegar þeir föttuðu að þeir komust áfram í HM. Þeim finnst það samt mjög skrýtið, því þeir töpuðu jú síðasta leiknum sínum!

fimmtudagur, júní 13, 2002
Alþjóðavæðing?
 
Á dæmigerðri rannsóknarstofu í sameindalíffræði vinnur fólk af ýmisskonar uppruna. Í sama herbergi og ég er kona frá Kóreu og maður frá Japan. Þau voru eitthvað að grínast með HM í fótbolta um daginn og voru bæði alveg sammála um það að það skipti nú þjóðarsálina í Japan og Kóreu litlu máli hversu langt lið þeirra næðu í HM, þeim fannst þetta bara pínu skondin keppni.

Ella er pólverji sem er "technician" á labbinu, en það orð er venjulega notað yfir fólk með B.S. gráðu sem vinnur á svona rannsóknarstofu. Sumir "tæknimannanna" eru með lítil rannsóknarverkefni, en það er algengast að "tekkinn" sjái líka um að búa til alskonar sameiginlegar lausnir sem við deilum svo öll á labbinu.

Eitt af því sem mér finnst taka tíma við að aðlagast á nýrri rannsóknarstofu er að læra á hreim allra á labbinu þannig að ég skilji hvað þau eru að segja. Ég skildi til dæmis ekki helminginn af því sem Vanesa sagði við mig í byrjun og var endalaust að geta í eyðurnar, hún er með svo sterkan spænskan hreim.
Pólski hreimurinn hennar Ellu finnst mér hins vegar bara pínu heimilislegur. Hún minnir mig pínulítið á hana Irenu sem ég leigði hjá út í Köben. Þær eiga það báðar sammerkt að vera pólskar og skapstórar.

Jagermeister
 
Ég fór og hitti stelpurnar á kaffihúsi í gær. Ég hef ekkert hitt Vasoo síðan í apríl, en hún fór heim til Indlands í mánuð í maí.
Hún er svo skemmtilega saklaus miðað við aðrar vinkonur mínar. Hún hafði aldrei smakkað áfengi áður en hún kom til NY, og sötraði stundum rauðvín í haust. Um áramótinn heimtaði vinur Prashants, mannsins hennar að hún smakkaði Jagermeister, og sagði henni að þetta væri skot þannig að hún yrði að demba þessu í sig. Ekki fannst henni Jagermeisterinn góður, en þegar Prashant fattaði að hún hefði smakkað þetta, víldi hann endilega að hún fengi sér líka eitt staup með honum. Hún var eiginlega skömmustuleg yfir allri þessari drykkju hjá sér og sagði að hún hefði meira að segja fundið slatta á sér.

Við Noelia vorum fljótar að sannfæra hana um að þetta væri nú ekkert til að skammast sín fyrir!

miðvikudagur, júní 12, 2002
Fráááaábæææært!
 
Blogger Pro1 er farinn að virka aftur, þannig að núna get ég notað hann án þess að fara í gegnum alskonar krúsídúllur áður.

Þegar ég skrifaði síðustu færslu, þá byrjaði ég á því að skrifa hana inn í Lyklaborðssíuna hans Sindra, til þess að fá íslensku stafina fram. Svo tók ég textann og peistaði honum inn í Netþýðandann hans Kristjáns og lét hann þýða færsluna yfir í Unicode. Að lokum afritaði ég þá útgáfu af textanum og setti inn í Blogger interfeisið og ýtti á publish...

Ég er svo þakklát fyrir að það skuli vera fólk eins og Kristján og Sindri sem gera svona script fyrir okkur hin til þess að létta líf okkar.

Hvílík snilld!

Meira ljúft..
 
Vííí.... Það er svo gaman að vera til þessa dagana!

Ég er að fara að gera ótrúlega spennandi tilraunir með Vanesu næstu daga, og svo er ég að lesa á fullu til þess að gera mér grein fyrir hvaða verkefni ég vil vinna á labbinu.

Veðrið er líka svo gott, og það er bara allt svo ljúft. Ég er að fara að hitta Vasoo og Noeliu á The Hungaria Coffee Shop í kvöld, annað kvöld er bjórkvöld á Telephone Bar og svo ætlum við Mörður að gera eitthvað næs um helgina.

Mér líður bara mjög vel að vera komin aftur til NY. Ég sakna auðvitað fjölskyldunnar og vinanna heima, en málið er að ég fann þessa tilfinningu þegar ég kom heim núna alveg eins og eftir jólin; Það sem ég er að fást við þessa dagana er hér og Mörður er hér, og þess vegna líður mér vel hérna.


þriðjudagur, júní 11, 2002
Easy...
 
Já, það er ekki fyrir stressinu að fara hjá mér þessa fyrstu daga á labbinu hjá henni Carol Prives.

Ég fór í gymmið í morgun, en það var heldur endasleppt, því ég vildi vera komin klukkan ellefu þegar Vanesa mætti. Hún lét þó ekki á sér kræla fyrr en klukkan eitt, og ég skemmti mér bara við að lesa þessa vísindagrein á meðan.
Í hádeginu fór ég svo og fékk mér sússírúllur, og sat á tröppunum fyrir framan Low Library og lét sólina baka mig á meðan ég æfði prjónfimina. Eftir hádegið las ég svo meira af greinum og svo klukkan fjögur sýndi Vanesa mér hvernig ætti að splitta frumum í nýjar skálar, en ég kunni það fyrir, svo að ekki lærði ég mörg handbrögðin í dag.
Ég trítlaði þvínæst heim, passaði mig að vera nógu lengi, til þess að njóta góðviðrisins, og nú er ég að fara að lesa meira, alveg þangað til Mörður kemur heim.


Summertime.. and living is..
 
Ég er að fíla veðrið hér í strimla þessa dagana. Að geta verið berfætt í sandölum og setið úti á tröppum í hádeginu og látið sólina baka mig. Klukkan er bara níu, en samt er hitinn strax orðinn 21°C.....næs...

Það gekk vel á labbinu í gær, þ.e. ég gerði ekki neitt, en fékk úthlutað skrifborði og talaði við Vanesu, sem ég verð að vinna með næstu vikurnar. Hún á að kenna mér allskonar skemmtilega hluti. Eini gallinn er að ég verð mjög háð henni fyrstu vikurnar, og hún mætir aldrei fyrr en klukkan ellefu í vinnuna, en vinnur svo frameftir. Mér finnst hins vegar best að byrja snemma að vinna. Í staðinn þá get ég verið ótrúlega dugleg í gymminu á morgnana! Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð vont.. eh...



mánudagur, júní 10, 2002
Blogger
 
Ég var að fá tölvupóst frá einhverjum gaur á Blogger.
Hann var að svara pósti sem ég skrifaði honum fyrir viku síðan, þegar þeir voru að svissa yfir í pro2. Hann var að spurja mig nánar út í vandamálið sem ég átti við að stríða þá.
Málið er að það loga allar umræðusíðurnar þeirra í pirringi yfir því að það vanti alla stafi sem ekki eru í enska stafrófinu, og að enginn þeirra svari og láti vita hvað sé í gangi.
Vandamálið sem ég átti við að stríða fyrir viku síðan er búið að umbyltast nokkrum sinnum, þannig að það sem hann ætlaði að laga var ekki lengur að, en allt önnur vandamál komin upp.

Ég svaraði honum og benti honum á að það logaði allt í óánægju, að þetta bara gengi ekki, eins góður og Netþýðandinn hans Kristjáns væri, þá væri ekki ásættanlegt að þurfa alltaf að setja færslurnar í gegnum það script áður en ég peistaði þeim inn í Blogger. Ég sagði honum að ég væri alveg að gefast upp og ætlaði að hætta að nota Blogger.

Hann svaraði mér því 5 mínútum seinna og baðst afsökunar og að hann væri bara búinn að vinna hjá Blogger í þrjá daga, því einhver annar gaur stakk af...



Vinna
 
Jæja, þá er komið að fyrsta vinnudeginum eftir alveg hreint ágætis frí.

Þessi vika á eftir að verða skemmtileg, en mjög krefjandi, þar sem ég er að byrja á alveg nýju verkefni, og að vinna vinnu sem mjög langt er síðan ég fékkst við síðast.

Blogger er ekkert að bæta sitt ráð, og ég er að nota Netþýðandann hans Kristjáns til þess að skrifa þessa færslu. Mér finnst alveg frábært hvað íslenskir bloggarar eru duglegir að redda sér! Netþýðandinn er alveg himnasending fyrir mig, því nú þarf ég ekki lengur að skrifa á íslénsku á síðuna!


sunnudagur, júní 09, 2002
Magg?????
 
Fyrir nokkrum arum sidan fór hluti af vinum mínum að kalla mig Ernu Magg. Thetta fannst mer alveg hrædilegt i fyrstu, en svo einhvern veginn saettist eg vid thad, og nu er thetta jafnvel hotmail-adressan min. En ekki alveg. Einhvern veginn fae eg alltaf hroll thegar thetta nafn er notad um mig. Bara svona eins og Berglind vinkona vill ekki lata kalla sig Beggu. En kannski er thad of seint, fyrst eg var of mikill bjani til að segja ekkert alveg strax.

En málid er að eg er Erna. Ju, og svo audvitad Erna Magnusdottir. Ekki Erna Magg....

Myndir
 
Eg var ad fa myndir ur framkollun. Finar myndir! Til thess ad skoda thaer sem eg setti a netið, getid thid smellt a linkinn "Myndirnar Okkar" her til haegri og kikt inn i myndaalbumin. Eg baetti nokkrum myndum aftast i "Palisades" albumid og svo i "Vid heima hja okkur" albumid og gerdi nytt album, med studentsmyndum af mommu, inni a "Mamma student" og svo nytt album med orfaum myndum ur gongunni okkar Herdisar.

Her fylgja synishorn, en athugid ad myndirnar ad nedan eru ekki vistadar i albuminu okkar a Bravenet, thannig ad til ad sja allar myndirnar verdur ad smella a adurnefndan link her til haegri.







laugardagur, júní 08, 2002
 
Nu er eg alveg ad gefast upp a Blogger. Thad er ad koma timi til ad skipta um kerfi og fara ad hysa thetta sjalf.

Dettifoss
 
Vá, ég var allt í einu að reka augun í wallpaperinn, sem ég setti upp rétt áður en ég fór í fríið til Íslands. Það er mynd af Dettifossi tekin úr flugvél, en á myndinni sést langt til suðurs. Meðal annars sést tjaldstæðið okkar við Selfoss greinilega og úðinn af Selfossi. Það er gaman að sjá myndina svona aftur og kannast við svæðið frá því að við vorum þarna í síðustu viku, í staðinn fyrir að sjá bara urð og grjót.

Leti
 
Þetta er búið að vera sannkallaður letidagur. Ég sofnaði aftur eftir síðasta blogg, og svaf til hádegis, og sofnaði svo aftur í klukkutíma seinnipartinn....

Við Mörður skruppum niður í bæ í blíðunni, að leita að veiðihúfu handa pabba hans, en ekki fannst hún. Við komum svo heim um sexleytið og elduðum pastarétt, en þetta var í fyrsta skipti sem eldhúsáhöld voru brúkuð á heimilinu í 12 daga.

Í kvöld þarf ég svo að fylla út umsókn um framlengingu á dvalarleyfinu mínu, og svo þarf ég að læra allt sem ég get um p21 áður en ég fer að vinna á mánudaginn. Mörður er hins vegar svo heppinn að eiga frí allar helgar, þannig að hann ætlar að skella sér í box-partý til Péturs og Eyrúnar í kvöld.

Heimóttargangur
 
Komin að heiman, heim! Eða réttara sagt, ég er komin heiman frá Íslandi (sem jú, er og verður alltaf heim), heim til Marðar, sem nú liggur auðvitað steinsofandi eftir að hafa vakað eftir mér og sótt mig í gær, á meðan ég steinsvaf alla leiðina í lestinni frá Boston.

Það er bara alveg ágætt að vera komin heim aftur, og verður náttúrulega miklu skemmtilegara þegar Mörður vaknar.

föstudagur, júní 07, 2002
Buxur, vesti, brók....
 
Hvurnin er hægt að tína af sér heilum buxum?!!! Nei, ég bara svona spyr. Sko, hérna.. ef einhver sér svörtu (gömlu, slitnu) Tark buxurnar mínar á vappi, þá má sá hinn sami vísa þeim leiðina upp í Trönuhóla 14 (eða út á Leifsstöð), þær eru nefnilega örugglega villtar.

fimmtudagur, júní 06, 2002
Finale....
 
Kvabbið í LÍN skilaði árangri í gær, því í dag fékk ég greitt inn á reikninginn minn það sem vantaði upp á lánið fyrir haustmisserið... Ekki svo slæmt!

Ágætis dagur annars, alltaf smá trist að kveðja fólk, sérstaklega eftir svona stutt stopp. Ég hitti fjölskylduna hans Marðar til dæmis bara í tvo tíma í dag, þannig að þetta var svona hæ-bæ, allt í einum pakka.

Ég var stoppuð af löggunni á leiðinni af barnum heim áðan. Ég var búin að fá mér eitt hvítvínsglas, og var þar að auki frekar illa fyrir kölluð, þannig að ég var skíthrædd um að þeir myndu láta mig blása, en þá voru þeir bara svona að spjalla, skömmuðu mig fyrir að vera ekki með ökuskírteini á mér. Ég náttúrulega brosti bara breitt og sagði þeim að ég hefði gleymt því í útlöndum, og þá slepptu þeir mér!

miðvikudagur, júní 05, 2002
Lín - Grín?
 
Ég fór niður í LÍN í morgun.... Ég átti pantaðan viðtalstíma klukkan hálftólf, en þegar ég mætti á svæðið var ég spurð hvort ég gæti komið eftir hálftíma, því að lánasjóðsfulltrúinn hefði skroppið í mat! Þetta eru dæmigerð vinnubrögð fyrir þessa stofnun. Ég brást þó vel við og skellti mér á kaffitár og fékk mér kaffibolla og gróft rúnstykki. -Hvílíkur lúxus eftir allt beygluát og Starbucsþamb vetrarins.

Petrína lánasjóðsfulltrúi vildi hins vegar allt fyrir mig gera, þannig að nú þarf ég bara að skila inn einkunnum þegar þær láta sjá sig, og þá er málið í höfn. Það má því segja að ég sé í fríi núna, ekki margir leiðindahlutir að vasast í meira...

þriðjudagur, júní 04, 2002
Sjokk...
 
Þegar ég kom heim frá mömmu í gær, beið mín tölvupóstur frá stofnuninni sem sér um dvalarleyfir og þess háttar fyrir mig í BNA. Mér til mikillar ánægju var þetta hálfgert hótunarbréf um það að ég væri ekki búin að endurnýja pappírana mína og væri því komin á 30 daga séns á að koma mér úr landi.

Ég fékk vægt sjokk, því ef maður er kominn á þennan 30 daga sjéns, kemst maður ekki inn í Bandaríkin aftur nema á túristavísa... Ég sá náttúrulega strax fyrir mér að ég yrði send strax heim með sömu vél á föstudaginn, og fengi aldrei að koma til Bandaríkjanna aftur.

Sem betur fer náði ég í hana Jen Wilson, kontaktmanneskju mína úti, og hún róaði mig alveg og sagði að þetta væri bara svona bréf sem hefði verið sent á alla, og ég kæmist alveg inn í landið, en þyrfti að passa að sækja um endurnýjun á dvalarleyfinu strax í næstu viku....

Fjúkk maður... ... en til hvers að vera að senda svona póst á mann og hræða mann, ef þetta er ekkert rétt sem stendur þar?

Ekki tók betra við þegar ég skrapp niður í LÍN að athuga með mín mál þar, því að þar er náttúrulega hver hendin upp á móti annari, og upplýsingar sem ég fékk í apríl þegar ég hringdi að utan eru kolrangar... Skemmtilegt! En kemur ekki á óvart miðað við fyrri viðskipti mín við þessa stofnun.

ps. Ég er engin smá skutla núna, ég fór nefnilega í klippingu í morgun hjá honum Bödda (or whatever his name is) á Space...

mánudagur, júní 03, 2002
Eins og maður sé í einhverju fríi....
 
Hahaha... það er svona að fara í frí til Íslands, maður þarf alltaf að afgreiða praktíska pakkann í leiðinni. Ég fór nefnilega tvisvar til tannlæknis í dag, hvorki meira né minna. Það var nú samt ekkert alvarlegt sem var að mér, en ekki gaman samt að láta bora í sig.

Það er samt alger lúxus að sofa svona fram að hádegi og bara slæpast eins og ég gerði í gær.




Myndirnar Okkar



Sendið okkur línu


Við erum að fíla:
Heimur hlauparans
Theodore Roosevelt
Dilwale Dulhania le Jayenge
Sigur-Rós
Cesaria Evora
Joe Locke